150. löggjafarþing — 79. fundur,  20. mars 2020.

verðtryggð lán heimilanna.

[11:13]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Fyrir skömmu kynnti hæstv. fjármálaráðherra aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar í sjö liðum til að leitast við að styrkja fyrirtækin í landinu vegna þess skelfilega heimsfaraldurs sem við erum í stríði við. Nú eru öll hjól atvinnulífsins að stöðvast.

Hér varð hrun fyrir 11 árum þar sem 12.000 fjölskyldur misstu heimili sín í verðbólgubáli sem kviknaði þá. Almenningur, fólkið í landinu, er ekki bara hræddur við Covid-19 sjúkdóminn, hann er einnig skelfingu lostinn um að missa heimili sín, að lánin hans stökkbreytist, eignir brenni upp í óðaverðbólgu.

Við stöndum sterkari í dag til að takast á við þessa vá en þegar hrunið skall á okkur. Ég sakna þess engu að síður að sjá enga sérstaka áætlun til að tryggja að verðtryggingin geti ekki enn á ný stökkbreyst, verðtrygging á verðtryggðum lánum heimila með jafn hrikalegum afleiðingum og eftir hrun. Gjaldeyrisforðinn er um 930 milljarðar og við stöndum ótrúlega vel. Ég spyr því hæstv. fjármálaráðherra: Hvað er hann að gera fyrir heimilin? Ætlar hann að taka á þessu? Mun hann sjá til þess að fólkið þarna úti geti andað rólega, viti að lánin þess muni ekki stökkbreytast, viti að það muni ekki missa heimilin? Er hann t.d. tilbúinn að taka verðtrygginguna úr sambandi ef verðbólgan fer upp? Er ekkert plan um að taka á þessum vanda og eigum við ekkert að læra af hruninu?