150. löggjafarþing — 79. fundur,  20. mars 2020.

gjaldþrotalög og greiðslustöðvun.

[11:24]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra og lýsi ánægju minni með það að ráðherra sé tilbúinn að skoða þetta mál. Ég vil hvetja ríkisstjórnina til að skoða það alvarlega og hafa það í huga að geta breytt lögunum þannig að þetta úrræði verði mögulega virkt meðan núverandi ástand varir, þ.e. að þeir einstaklingar sem lenda í þessum aðstæðum, sem koma örugglega til með að verða margir, geti þá fallið undir ákvæði laganna um greiðslustöðvun. Ég tel ákaflega mikilvægt að stjórnvöld hafi það í huga og að þetta sé úrræði sem hægt verði að beita innan skamms ef þess gerist þörf.

Að lokum langar mig að nota þetta tækifæri til að minna á einn hóp sem hefur algjörlega gleymst í umræðunni hér vegna aðstæðnanna í samfélaginu. Það er fólk og einstaklingar sem eru á atvinnuleysisskrá. Það eru u.þ.b. 11.000 einstaklingar á atvinnuleysisskrá sem eru sumir hverjir að missa rétt sinn (Forseti hringir.) og útséð um að fái vinnu eins og staðan er í dag. Þeir eru í skelfilegum aðstæðum fjárhagslega. Ég held það sé mjög nauðsynlegt, herra forseti, að það verði skoðað alvarlega (Forseti hringir.) að lengja tímann eins og gert var í hruninu, þ.e. rétt til atvinnuleysisbóta.