150. löggjafarþing — 82. fundur,  23. mars 2020.

aðgerðir til að mæta efnahagslegum áhrifum í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveiru.

683. mál
[11:45]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í aðgerðum okkar erum við að reyna að sporna við frekara atvinnuleysi. Ég tel að við séum með mjög skýrar aðgerðir í þeim tilgangi. Við erum beinlínis að hvetja fyrirtæki til að lækka starfshlutfall og að ríkissjóður taki á sig launakostnaðinn. Þetta eru stórtækustu aðgerðir sem við höfum nokkurn tíma ráðist í til að forða atvinnuleysi og styðja við fólk sem ella hefði lent á atvinnuleysisskrá.

Ég verð síðan að segja varðandi áhyggjur vegna fyrirtækja sem eru í miklum vanda vegna tekjufalls, að við ætlumst auðvitað til þess að viðskiptabankarnir standi með þeim fyrirtækjum sem hafa staðið í skilum í áravís og jafnvel áratugavís. Við gerum sömuleiðis ráð fyrir því að eigendur, þar sem það getur átt við, styðji við sín félög. Ríkið er hér að koma með mjög stórt innlegg. Það er mikilvægt að við fáum skýr svör næst frá viðskiptabönkunum um það með hvaða hætti þeir ætla að stíga inn í þessa mynd. Sveitarfélögin hafa sömuleiðis hlutverki að gegna og svo verðum við að meta stöðuna á næstu mánuðum, hvort nægilega mikið er að gert.