150. löggjafarþing — 82. fundur,  23. mars 2020.

aðgerðir til að mæta efnahagslegum áhrifum í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveiru.

683. mál
[12:00]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Frú forseti. Í fyrra andsvari velti ég aðallega fyrir mér af hverju virðisaukaskattur hefði verið undanskilinn í aðgerðum varðandi mögulegan greiðslufrest á opinberum gjöldum. Ég hef dálitlar áhyggjur af þessum þætti og kannski líka um leið þeim aðgerðum sem gripið er til varðandi tollkrítina svokölluðu þar sem í raun er bara bætt inn viðbótargjalddaga, en það er 20% viðbótarfrestur á helmingi fjárhæðarinnar.

Greiðsluflæðið í atvinnulífinu mun einfaldlega þorna upp á næstu vikum og mánuðum og þess vegna er mjög mikilvægt að ríkið, sem er í stöðu til þess, taki dálitla áhættu núna með atvinnulífinu. Á endanum snýst þetta um að taka áhættu með atvinnulífinu til að vernda störf, til að koma því til leiðar eins og kostur er að atvinnulífið verði eins öflugt og kostur er þegar við komum út úr þessari veiru. Þess vegna spyr ég hæstv. ráðherra: Hefði ekki verið ráð að horfa til almennra aðgerða (Forseti hringir.) um greiðslufrest á öllum opinberum gjöldum, í það minnsta á því bráðatímabili sem við erum að glíma við næstu tvo til þrjá mánuði?