150. löggjafarþing — 82. fundur,  23. mars 2020.

aðgerðir til að mæta efnahagslegum áhrifum í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveiru.

683. mál
[12:21]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um aðgerðir til að mæta efnahagslegum áhrifum í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveirunnar og þær ráðstafanir sem gripið hefur verið til. Það er margt gott þarna inni en það er líka margt sem vantar. Ég tók eftir í ræðu hæstv. fjármálaráðherra áðan að hann talaði um að þarna væri fyrst og fremst um fyrirtæki og störf að ræða. Ég get vissulega tekið undir að það er mjög mikilvægt. Fyrst og fremst er þó um heimilin að ræða. Ég segi fyrir mitt leyti að ef heimilin brenna upp á verðbólgubáli eða ef á annan hátt verður ekki séð til þess að heimilin lifi af vitum við að þá verður ekki mikið um verslun og viðskipti. Þegar risið byrjar aftur verða það heimilin sem geta komið hagkerfinu í gang en þarna úti er stór hópur, allt of stór, sem getur það ekki, getur það ekki einu sinni í dag. Þessi hópur er skelfingu lostinn núna vegna þess að þetta er hópurinn sem fór verst út úr hruninu og óttast um tilveru sína, heimili sitt eða hreinlega að lifa af, hvort hann eigi fyrir mat eða lyfjum. Þetta er skelfileg staða og í þeirri stöðu á enginn að þurfa að vera. Því miður er boðið upp á það að það er allt of stór hópur, 30.000–40.000 manns, sem er í og undir fátæktarmörkum. Stór hópur þar inni er líka í sárafátækt.

Hæstv. fjármálaráðherra sagðist hafa farið á heimasíðu TR og slegið inn að ég held einstæða móður með tvö börn og tók hana sem dæmi um það hversu góð staðan væri í almannatryggingakerfinu, staðan sem hún væri í. Ég get ekki tekið undir það. Það er ekkert rosalega góð staða að vera með rétt um 300.000 kr. útborgað með tvö börn og þurfa að sjá um bæði heimili og mat og vera einn að gera það. Það er líka sama með aðra sem reyna að lifa af 221.000 kr. Það furðulegasta í þessu öllu saman, það er eiginlega undarlegt, og þarf alvarlega rannsókn á, er hvers vegna í ósköpunum þetta fólk borgar útsvar eða skatt. Hvernig stendur á því að við getum áratugum saman verið að skattleggja fátækt, jafnvel sárafátækt. Inni í þessu dæmi er því miður ekkert um þau mál.

Í þessu frumvarpi er bankaskatturinn tekinn út með einu pennastriki. Ég hefði viljað að það hefði verið gert líka við þá sem þurfa mest á fjármunum að halda í dag, þá sem eru á lægstu lífeyrislaunum, en það er ekki inni í dæminu.

Annað sem er inni í dæminu er alveg stórfurðulegt mál. Ég skil ekki einu sinni hvernig í ósköpunum þetta getur komist inn í þennan lið og það er liður 2 í b-lið 3. gr., 20.000 með hverju barni innan 18 ára aldurs fyrir þá sem hafa yfir 11.125.045 kr. í laun — annar aðilinn. Við erum að tala um hátekjufólk. Ætlar einhver að segja mér hérna að þess þurfi? Þurfum við sem erum á þingi 20.000 kr. frá ríkinu af því að við eigum börn? Hvernig í ósköpunum stendur á því að þetta er þarna inni? Ég vil fá þetta út og að þessir peningar fari beint til þeirra sem virkilega þurfa á þeim að halda. Það er alveg með ólíkindum að á sama tíma og verið er að verja það að ekki sé búið að setja neitt inn til ellilífeyrisþeganna og öryrkjanna sem þurfa virkilega á því að halda, það er ekkert í dæminu, að þá skuli þetta vera inni, 20.000 kr. fyrir þá sem þurfa ekkert á því að halda. 40.000 kr. fyrir þá sem þarna eru undir er flott. Þetta eru barnabætur og þær eru skattlausar og þar af leiðandi munu þær ekki skerða upp allan stigann hjá þeim sem eru í skerðingarmálum Tryggingastofnunar, hvað þá í keðjuverkandi skerðingarmálum sem eru enn einn ljótur blettur á almannatryggingakerfinu þar sem verið er að skerða fólk miskunnarlaust algjörlega niður í sárafátækt.

Síðan er talað um útgreiðslu á séreignarsparnaði. Allt í lagi fyrir þá sem geta það en það er líka þessi sami hópur, stór hópur, sem á engan séreignarsparnað, á engan varasjóð. Hvar er hjálpin handa þeim inni í þessu? Hún er ekki þar og þá hlýtur maður að spyrja: Hvers vegna ekki? Hvers vegna í ósköpunum er ekkert þarna inni? Á sama tíma er þarna inni 5.000 kr. ferðaávísun á hvert mannsbarn. Það eru til peningar en þeir peningar fara ekki á réttan stað.

Síðan er t.d. ekki tekið á ákveðnum einstaklingum sem ég held að hafi verið mikið áhyggjuefni, frístundabændum sem eru að leigja út til erlendra ferðamanna. Bændur og einstaklingar eru búnir að byggja upp starfsemi sína og eru með ákveðið tímabil á hverju ári sem þeir eru með útleigu, hætta á haustin og byrja á vorin. Ég óttast um þennan hóp og það er eiginlega undarlegt að ekki skuli vera tekið betur á honum.

Síðan, en ekki síst, það sem ég næ ekki og skil ekki er hvers vegna í ósköpunum þessi tregða er við að ráðast strax í að kveða niður mögulega verðbólgudrauginn sem fer af stað og yfirtekur heimilin. 10.000–12.000 heimili brunnu upp í hruninu og það fólk sem þar lenti undir er búið að reyna að byggja sig upp. Óttinn er til staðar. Þessari ríkisstjórn ber að sjá til þess strax að slá á þennan ótta og gefa yfirlýsingu um að þetta verði ekki. Einhverra hluta vegna vill hún ekki gera það og segir að við þurfum ekki að óttast verðbólguna. Það er eiginlega stórfurðulegt að segja á Íslandi að við þurfum ekki að óttast verðbólguna vegna þess að hún er lengi búin að vera draugurinn okkar. Ég held að núna sé eiginlega tækifærið. Núna hefði verið frábært tækifæri til þess hreinlega að taka verðtrygginguna úr sambandi á íbúðalánum, sjá til þess að hún verði ekki til staðar. Ef vilji væri fyrir hendi væri það gert en það er enginn vilji hjá þessari ríkisstjórn til að gera þetta. Hún virðist fyrst og fremst leggja áherslu á fyrirtæki og störf. Það er ágætt, það er bara fínt, en við megum ekki gleyma fólkinu þarna úti.

Ég skil heldur ekki af hverju ekki er búið að setja 10, 20 eða 30 milljónir til Hjálparstarfs kirkjunnar, Fjölskylduhjálparinnar eða Mæðrastyrksnefndar, sem myndi ekki ríða ríkissjóði að fullu, til að tryggja að allir sem þurfa á aðstoð að halda fái hana og líka að tryggja það sem þarf í því samhengi að þeir sem búa úti á landi geti líka fengið aðstoð ef þeir þurfa á að halda. Það virðist einhvern veginn ekki vera inni í pakkanum hjá ríkisstjórninni að hugsa um þá hópa sem minnst hafa og eru vegna langs tíma í fjárhagslegu svelti í mestri hættu. Það hefur sýnt sig og hefur verið sannað að fátækt er tjón og kostnaður fyrir þjóðfélagið, stór kostnaður vegna þess að áhættan er mikil á því að viðkomandi lendi í heilbrigðiskerfinu af fullum þunga. Áhættan er meiri í þessum hópi á að verða útsettur fyrir þessari veiru. Þess vegna ber að verja þennan hóp og passa upp á að hann verði ekki fyrir barðinu á veirunni og líka að hann sé ekki heima óttasleginn án lyfja, án matar, án hreinlætisvöru. Nýjustu tölurnar sýna ef má trúa því að lýsi, C-vítamín og D-vítamín séu bjargvætturinn. Ég held að ég trúi því hreinlega. Ég tek alltaf lýsi og held að það sé hið besta mál. Þetta er það sem við höfum við gætum séð til þess að allir hefðu þetta en því miður er ekki verið að gera það.

Ég ætla ekki að hafa þetta miklu lengra en eins og ég segi er ég sæmilega ánægður með það sem verið er að gera en ótrúlega óánægður með það sem ekki er verið að gera. Ég skil ekki af hverju í ósköpunum þessi ríkisstjórn skilur þá eftir sem eru í mestu neyðinni og þurfa mest á hjálpinni að halda. Ef það verður svoleiðis á það eftir að kosta mun meiri pening fyrir ríkissjóð að gera þetta svona en að bjarga þessu. Þá verður ríkisstjórnin líka að svara hvers vegna í ósköpunum þessi hópur fær ekki þá hjálp sem er verið að bjóða og verður einn skilinn út undan enn einu sinni.