150. löggjafarþing — 82. fundur,  23. mars 2020.

almannavarnir.

697. mál
[15:13]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir þetta svar og bíð eftir svarinu um samráðið. Ég tel mjög mikilvægt að nefndin, ef tími vinnst til, hafi sérstaklega samráð við stéttir lögreglumanna og hjúkrunarfólks sem ég geri ráð fyrir að verði helst þær stéttir ásamt sjúkraflutningamönnum og sjúkraliðum sem verða hugsanlega kallaðar til á hættustundu, eins og hér segir. Það er mikilvægt að ræða við þessar stéttir og ekki síst um hugsanlegt áhættuálag vegna þess að þær standa fremstar í baráttunni á flestum sviðum þegar hætta steðjar að, eins og þessi faraldur hefur sannað, sem og snjóflóðin og veðrið líka, eins og váin sem steðjar að okkur hefur margsinnis sannað. Ég tel nauðsynlegt að tala við þessar stéttir. Það er talað um að haft hafi verið samband við helstu stéttir. Ég vil fá að vita nákvæmlega hvernig þetta samband var. Var rætt við þessar stéttir um þetta? Þetta verða stéttirnar sem helst mun mæða á þegar þetta er rætt.

Ég ætla aðeins að fara að fyrri spurningunni. Ég nefndi hvort ekki ætti að skýra betur hvað hættustund væri. Eins og segir í greinargerðinni er hættustund eitthvað sem er á milli þess að vera neyðarstig almannavarna og hættustig almannavarna. Það er ekki bara neyðarstigið heldur virðist það líka vera eitthvað sem gæti hugsanlega gerst á hættustiginu. Það er það sem ég er að meina. Þarna segir að hættustund sé þegar ríkislögreglustjóri hafi lýst því sérstaklega yfir, hann er þá líklega búinn að lýsa yfir hættustigi. En hvað er það þá sem ríkislögreglustjóri á sérstaklega að taka fram (Forseti hringir.) þegar upp er runnin einhvers konar hættustund? Það er þetta sem ég er að spyrja hæstv. ráðherra um.