150. löggjafarþing — 92. fundur,  22. apr. 2020.

fjáraukalög 2020.

724. mál
[11:53]
Horfa

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf):

Frú forseti. Eins og hæstv. fjármálaráðherra var rétt að segja stefnum við í dýpstu kreppu í meira en 100 ár. Viðbrögð stjórnvalda verða að taka mið af þeirri staðreynd. Í fullri sanngirni og hreinskilni sagt er þessi pakki, ef svo má kalla, pakki númer tvö, engan veginn nægjanlegur til að mæta því ástandi sem blasir við íslenskum heimilum og fyrirtækjum.

Förum aðeins yfir nokkur atriði. Í fyrsta lagi erum við ekki að tala um 60 milljarða kr. innspýtingu eins og ríkisstjórnin vill að fyrirsagnirnar verði. Það er ekki rétt því að af þessum 60 milljörðum eru 41 milljarður lán sem þarf að endurgreiða, eins og á að gera með öll lán, og í öðru lagi er frestun skattgreiðslna. Innspýtingin er því 20 milljarðar. Hvað eru 20 milljarðar mikið? Þeir eru heil 2% af ríkisfjármálunum og ef við skoðum sérstaklega fjáraukalagafrumvarpið sem við erum að ræða hér er um að ræða um 13 milljarða, rúmlega 1%. Getur einhver sagt að þessar tölur, hvort sem litið er til 20 milljarða eða 13 milljarða, 1–2% aukning ríkisútgjalda, séu nægjanlegar í því ástandi sem hér blasir við? Ég er svolítið þreyttur á að alltaf er sagt: Það kemur meira seinna. Þetta var sagt eftir síðasta pakka, síðan leið heill mánuður og við fengum þennan þunna pakka. Ég veit að margt er jákvætt í svona pakka en ég er að reyna að draga fram það sem betur má fara. Það er hlutverk mitt í stjórnarandstöðu. Við sjáum það á viðbrögðunum að afskaplega fáir eru lukkulegir með þennan pakka. Ég veit alveg að við getum ekki gert allt fyrir alla en við skulum gera a.m.k. aðeins meira en þetta.

Mér finnst merkilegt, þó að hæstv. ráðherra fyndist það ekki í andsvari sínu til mín, að á 36 blaðsíðna glærupakka ríkisstjórnarinnar er ekki minnst einu orði á heimilin. Auðvitað veit ég að sumt gagnast fólki, ég átta mig alveg á því, en fólk er ekki fyrirtæki og fyrirtæki eru ekki fólk. Það þarf líka aðgerðir til að mæta tekjutapi heimilanna. Þar er atvinnuleysið óvinur númer eitt, tvö og þrjú. Atvinnuleysisbætur eru 290.000 kr. og það stefnir jafnvel í að allt að einn fjórði af íslensku þjóðinni sé á leiðinni á atvinnuleysisbætur. Ráðherra svaraði ekki þeirri fyrirspurn minni hvort hann treysti sér til að lifa á 290.000 kr. á mánuði. Ég myndi ekki treysta mér til þess. Af hverju eru atvinnuleysisbætur ekki hækkaðar í þessum pakka?

Við í Samfylkingunni leggjum fram þingmál seinna í dag, sem verður til umræðu á eftir, um að hækka atvinnuleysisbætur. Af hverju er það ekki gert? Það er tillaga sem myndi mæta tekjufalli heimilanna, ekki satt? Þetta skiptir máli. Kannski eru heimilin ekki inni á radar ráðherrans sem er mjög fyrirtækjaoríenteraður. Auðvitað þarf að huga að fyrirtækjunum en mér finnst merkilegt að hér sé engin sérstök áhersla lögð á að mæta tekjufalli eða atvinnumissi heimilanna með beinum hætti. Ég veit að hlutabótaleiðin er komin, hún er góð, en við þurfum meira. Mér finnst líka merkilegt í þessum pakka að afskaplega lítið er um ný störf til að mæta atvinnuleysinu. Vissulega eru sumarstörf og ég ætla ekki að gera lítið úr þeim, þau skipta máli, en það vantar ný störf. Þess vegna sagði ég við hæstv. ráðherra áðan: Af hverju ekki opinber störf? Hversu slæmt er það? Það þarf fleiri hjúkrunarfræðinga, sjúkraliða, sjúkraþjálfara, kennara, lögreglumenn, fólk sem vinnur að barnavernd, sálfræðinga og vísindamenn. Þetta eru opinberir starfsmenn sem við getum bætt í, störfum myndi fjölga, þjónusta við almenning yrði bætt og hann nyti góðs af opinberri þjónustu. Það getur verið flóknara að bæta við störfum í einkageiranum, það þarf líka að gera, en við erum með opinbera geirann í fanginu. Af hverju bætum við ekki þar hressilega í? Mér finnst slæmt það viðhorf að ekki megi bæta í opinbera kerfið af því að það sé báknið og af hinu slæma.

Ég ætla að fara aðeins yfir það. Hvað gera opinberir starfsmenn? Það er opinber starfsmaður sem tekur á móti okkur þegar við fæðumst. Það er opinber starfsmaður sem kennir börnunum okkar. Það er opinber starfsmaður sem sér um þarfir fatlaðra ættmenna. Það er opinber starfsmaður sem er í framlínunni gegn heimsfaraldri en það er einnig opinber starfsmaður sem rannsakar jarðfræði Íslands, vaktar snjóflóðahættu, leggur vegina sem við keyrum, sígur úr þyrlu til að bjarga sjómanni, greiðir áunnar bætur og kemur í veg fyrir að á okkur sé brotið, hvort sem um er að ræða neytanda eða aðra manneskju. Loks er það opinber starfsmaður sem hjúkrar okkur á dánarbeði.

Við skulum ekki tala niður opinbera þjónustu og opinber störf. Þau skipta miklu máli. Í svona áfalli er þetta í alvörunni sagt mjög skynsamleg leið til að mæta þeim vanda sem blasir við. Störfum er að fækka og við sjáum um hið opinbera. Við getum alveg spýtt í og fjölgað opinberum starfsmönnum. Það er ekki að gerast í þessum pakka.

Frú forseti. Lítum aðeins á litlu fyrirtækin. Ég hef áhyggjur af að þau gleymist, ekki síst í ferðaþjónustunni. Úrræðið sem gagnast litlu fyrirtækjunum er fyrst og fremst lánin, allt að 6 milljónir. Þetta er of lítið. Fyrirtæki sem fær lán þarf að greiða það til baka eins og gefur að skilja. Það þarf að setja meiri hugsun í það hvernig við mætum þessum litlu fyrirtækjum, ekki síst í ferðaþjónustunni, sem blæðir. Þau eru bara farin. Hvernig getum við hjálpað litlu ferðaþjónustufyrirtækjunum? Þetta eru ekki endilega fyrirtæki sem þurftu að hætta starfsemi vegna tilmæla sóttvarnayfirvalda, þetta eru fyrirtæki sem þurftu að hætta vegna tekjufalls.

Lítum á fyrirtækin sem neyddust til að stoppa starfsemi sína vegna tilmæla sóttvarnayfirvalda. Þau fá rúmlega 2 milljónir. Í sumum tilfellum dugar það ekki einu sinni fyrir húsaleigu síðustu tveggja mánaða, hvað þá að mæta því tekjutapi sem þessi fyrirtæki, hárgreiðslustofur, tannlæknastofur, hver svo sem þau fyrirtæki eru, þurftu að þola vegna tilmæla sóttvarnayfirvalda.

Lítum aðeins á félagslega pakkann í þessum fjárauka. Hvað er hann stór? Hann er 8,5 milljarðar. Það er allt og sumt. Auðvitað fagna ég hverri krónu sem ríkisstjórnin setur í félagsmál, hvort sem það er geðrækt, aðgerðir gegn heimilisofbeldi eða annað. En það er allt of skammt gengið. Ég hef sagt það áður við ráðherrann að hann hefur okkur í þessum sal sem sína bandamenn til að bæta hressilega í. Að bæta 1 prósentustigi við ríkisútgjöldin er ekki að bæta hressilega í, frú forseti. Ráðherrar í ríkisstjórninni munu ekki mæta andstöðu í þessum hluta salarins ef þeir vilja bæta hressilega í. Fjármálaráðherra hefur sjálfur sagt að hann vilji gera meira en minna en hann gerir svo sannarlega of lítið.

Félagslegi pakkinn er 8,5 milljarðar. Setjum þessa tölu í smásamhengi. Þetta er lægri upphæð en lækkun veiðileyfagjalda hefur orðið á kjörtímabilinu hjá þessari ríkisstjórn. Hugsið ykkur. Þetta er ekki myndarlegur pakki til að mæta þeim félagslega vanda sem orsakast af þessu áfalli. Kíkjum á fjárfestingarnar, það er ekkert verið að spýta í fjárfestingarpakkann í vegaframkvæmdum hjá ríkinu. Síðasti fjárfestingarpakki var orðinn lítill áður en blekið á þeim pakka þornaði. Ekki bara við í stjórnarandstöðunni bentum á það. Ég bjóst við að hér kæmi innspýting í fjárfestingar í vegaframkvæmdir, í þessar verklegu framkvæmdir sem við getum ráðist í til að vega upp minni eftirspurn á einkamarkaðnum. Það er ekki í þessum pakka.

Nýsköpunarpakkinn er enn of lítill. Mér finnst þetta svo augljóst. Nýsköpun er töfraorð í kreppu. Sjóðurinn Kría fær aukalega milljarð en það er of lítið. Auknir fjármunir í rannsóknasjóði og nýsköpunarsjóði skila sér margfalt til baka. Af hverju setjum við ekki meira í t.d. Kvikmyndasjóðinn? Við vitum ekkert hvert næsta Marel eða Meniga verður. Við vitum ekkert um hver verður næsti Baltasar Kormákur. Þetta er opinber leið til að koma hjólunum aðeins af stað, nýta sér þessa sjóði og við getum gert það með einu pennastriki.

Hér er bætt aðeins í listamannalaunin. Ég fagna því og velti fyrir mér hvaðan ráðherrar fengu þá frábæru hugmynd. Ég fagna því að 100 listamönnum sé bætt á listamannalaun. Þeir eru 300 núna. Ég vildi tífalda fjölda listamanna á listamannalaunum. Mér finnst það sniðug hugmynd. Við fögnum því að bæta 100 listamönnum á listamannalaun en hafið í huga að 3.500 sjálfstætt starfandi listamenn eru allir núna að upplifa frost í starfsemi sinni, m.a. vegna tilmæla frá hinu opinbera. Af hverju er skárra að hafa listamann á atvinnuleysisbótum en listamannalaunum? Listamannalaun eru laun, við skulum hafa það líka alveg á tæru. Þegar fólk fær listamannalaun þarf það að skila skýrslu, það þarf að gera grein fyrir afrakstri og skila vinnu. Við fengjum meiri listsköpun og við fengjum líka meiri umsvif, við fengjum skatttekjur á móti. Ég vildi tífalda fjölda listamanna á listamannalaunum sem myndi vissulega kosta, það kostar jafn mikið og 1 prósentustig í auknu atvinnuleysi. Auðvitað er miklu skynsamlegra að útvíkka þetta úrræði enn meira.

Svo langar mig aðeins að fjalla um það sem er þó jákvætt í frumvarpinu. Ég fagna því að nú fær fólkið í framlínunni álagsgreiðslur í heilbrigðiskerfinu og félagsþjónustunni. Ég minni á að það er nánast korter síðan þessi blessaði meiri hluti felldi ósköp svipaða tillögu. Af hverju erum við í þessum skotgröfum? Við samþykktum allar tillögur stjórnarflokkanna í fyrri aðgerðapakka. Ríkisstjórnarflokkarnir, Framsóknarflokkur, Sjálfstæðisflokkur og Vinstri grænir, felldu hverja einustu tillögu stjórnarandstöðunnar. Hvers konar sandkassaleikur er þetta í neyðarástandi? Núna dúkka upp aðrar tillögur í þessum pakka sem eru í samræmi við breytingartillögur okkar í stjórnarandstöðunni sem ríkisstjórnin felldi ekki alls fyrir löngu. Hér er verið að auka endurgreiðslur þróunarkostnaðar. Við lögðum svipað fram, góð tillaga komin í pakkann, frábært. Við lögðum það til að setja aukna fjármuni til langveikra barna og fjölskyldna þeirra. Það var fellt, en er komið í pakkann, gott mál. Við vildum setja aukinn stuðning í grænmetisframleiðslu, nýsköpun og annað slíkt. Gott og vel, auðvitað fögnum við öllum þeim skrefum sem við í stjórnarandstöðu náum í gegn en mér finnst þetta leiðigjarnt. Ef þessi blessaða ríkisstjórn er sammála okkur, af hverju er ekki allt í lagi að samþykkja eitthvað frá stjórnarandstöðuflokkunum sem nota bene, frú forseti, um 46% af þjóðinni kusu?

Svo eru fjölmiðlarnir. Mér finnst skipta miklu máli það sem ég spurði hæstv. ráðherra um í andsvari mínu áðan, að þær 350 milljónir sem eru í þessum pakka og eiga að renna til fjölmiðlanna eru viðbót — ég vona að ég misskilji ekki ráðherra, hann getur leiðrétt mig á eftir — við þær 400 milljónir sem nú þegar hefur verið ákveðið að eigi að renna til frjálsra fjölmiðla. Þetta skiptir miklu máli. Ef stjórnarmeirihlutinn afgreiðir ekki fjölmiðlafrumvarpið sem þegar er í nefnd, um 400 milljónirnar, trúi ég ekki að niðurstaðan verði að fjölmiðlarnir fái bara 350 milljónir. Ég trúi ekki að verið sé að lækka upphæðina til fjölmiðlanna. Þess vegna varpa ég þessu fram. Mér skilst á hæstv. ráðherra að það sé ekki hugsunin. Hugsunin er að frjálsir fjölmiðlar fái 750 milljónir. Þetta skiptir máli fyrir frjálsa fjölmiðla í landinu og er gott mál. Ég trúi ekki að ef málið verður ekki afgreitt úr nefndinni detti hinar 400 milljónirnar hreinlega niður og nettóaukningin verði 350 milljónir sem þýðir í rauninni lækkun frá því sem var ákveðið fyrir faraldur.

Frú forseti. Djúpt í greinargerðinni við fjáraukann er lítil setning sem ég hef smááhyggjur af. Þar stendur, með leyfi forseta:

„Við lausn bráðavandans má ekki missa sjónar á því að á komandi árum mun þurfa að brúa framkomið misvægi tekna og útgjalda ríkissjóðs og bæta skuldastöðuna jafnt og þétt þar til hún verður orðin hófleg að nýju.“

Það er frekar ljóðrænt að tala um eitthvert misvægi tekna og útgjalda. Í þessari setningu má lesa að eftir að við erum komin út úr þessu neyðarástandi blasi við niðurskurður. Þetta þýðir það á mannamáli. Við munum ekki sætta okkur við það að hin opinbera þjónusta, sem er svo mikilvæg fyrir okkar fólk í landinu, verði látin taka höggið þegar hlutirnir róast aðeins, að opinberir starfsmenn og þeir sem njóta opinberrar þjónustu, hvort sem það eru eldri borgarar, öryrkjar, sjúklingar, nemendur, kennarar o.s.frv., verði látnir greiða upp skuldahalann (Forseti hringir.) sem myndast núna til að bregðast við því en ég hef áhyggjur af því, frú forseti.