150. löggjafarþing — 92. fundur,  22. apr. 2020.

frekari aðgerðir til að mæta efnahagslegum áhrifum í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveiru.

726. mál
[19:15]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við höfum áður kynnt áform um stofnun sjóðsins, hann fær um 2 milljarða í stofnfjárfestingarfé samkvæmt tillögum. Hérna er verið að tala um að bæta rúmlega milljarði við þá fjárhæð. Þetta er sem sagt stofnframlagið og mun reyna á það í framhaldinu hvernig fjárfestingargetan byggist upp. Við höfðum í upphaflegu hugmyndunum gengið út frá því að allt varðandi umgjörð sjóðsins yrði klárt á þessu ári, öll formlegheit og hugmyndir um nýjar fjárfestingar myndu berast stjórn sjóðsins á þessu ári og þannig væri stefnt að því að fjárfestingar færu af stað á næsta ári. En hérna er verið að boða að sjóðurinn fái strax aukið fé og geti þannig byrjað fjárfestingar strax á þessu ári. Það er breyting frá því sem áður var áformað.