150. löggjafarþing — 95. fundur,  30. apr. 2020.

aðgerðir til aðstoðar stórum fyrirtækjum.

[10:42]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Fyrr í vikunni kynnti ríkisstjórnin þriðja aðgerðapakkann. Þar er margt nauðsynlegt og uppsagnaleiðin mun eflaust gagnast fjölmörgum fyrirtækjum í algjöru frosti og vonandi koma í veg fyrir gjaldþrot einhverra þeirra. Milljarðar munu renna til viðbótar úr sameiginlegum sjóðum að miklu leyti til nokkurra stórra fyrirtækja.

Ég spyr því: Er til greining á því hvernig þessir fjármunir muni skiptast milli fyrirtækja vegna uppsagnaleiðarinnar, t.d. til fimm eða tíu stærstu fyrirtækjanna?

Í mörgum nágrannaríkja okkar hefur verið farið í almennar aðgerðir fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki en sértækar aðgerðir vegna stórra og kerfislægra mikilvægra fyrirtækja — eins og flugfélaga. Þannig koma núna fjölmörg ríki til aðstoðar og eignast tímabundið hlut í evrópskum flugfélögum. Íslenska ríkisstjórnin hefur ákveðið að fara aðra leið. Nú fær Icelandair í gegnum þessa leið líklega um 7 milljarða í sinn hlut sem er helmingur markaðsvirðis fyrirtækisins og hæstv. ráðherra upplýsir hér að það gæti orðið meira. Auðvitað þurfum við að aðstoða þetta mikilvæga fyrirtæki sem er algjör lífæð til landsins, en þegar um er að ræða marga milljarða króna af skattfé almennings er mikilvægt að staldra við og fá skýr svör við eftirfarandi:

Er eðlilegt að ráðstafa svo stórum upphæðum, og jafnvel meiru í framhaldinu, til að verja hlutafé fyrirtækis án þess að við eigum nokkurn möguleika á að fá það með beinum hætti til baka og eignast tímabundið í fyrirtækinu?