150. löggjafarþing — 105. fundur,  19. maí 2020.

störf þingsins.

[13:39]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Sumargjafir eru góður og þjóðlegur siður, að gefa börnunum sínum sumargjafir, en sumargjafir eigenda Samherja til barna sinna eru kannski í stærri kantinum, þær nema tugum milljarða króna í tilfærslu frá eigendum Samherja til afkomenda sinna. Þetta endurspeglar stórgallað kvótakerfi með óheftu framsali og samþjöppun til stórra fjármagnseigenda. Fjármagnið stýrir að stórum hluta hverjir nýta sjávarauðlindina og hvar hún er nýtt og hvar arðurinn af auðlindinni lendir. Það hefur orðið gífurleg samþjöppun í greininni á þeim 30 árum frá því að óhefta framsalið var sett á. Fjármagnseigendur hlutabréfa í stórum útgerðarfélögum eru í engum tengslum við hagsmuni þjóðarinnar eða íbúa sjávarbyggðanna sem hafa margoft þurft að blæða fyrir þegar lifibrauð þeirra og afkoma fer á einni nóttu. Þetta getur varla talist ásættanlegt við stjórn á sameiginlegri auðlind okkar.

Þegar óhefta framsalið var sett á 1990 með lögum var það gert með hagræðingarkröfu að leiðarljósi, að lögmál markaðarins myndu auka hagkvæmni veiðanna, en frá þeim tíma hafa allir þessir gallar komið í ljós og komið í veg fyrir eðlilega þróun í sjávarbyggðum landsins. Græðgi, brask og miklir fjármunir hafa runnið frá greininni í óskylda starfsemi. Það er hægt að stýra auðlindinni með öðrum hætti, með nýtingarsamningum og endurúthlutun og koma auðlindaákvæði í stjórnarskrá. Það verður að koma í veg fyrir að svona miklir fjármunir af sameiginlegum auðlindum okkar og sem byggjast á sameign þjóðarinnar renni á milli kynslóða. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)