150. löggjafarþing — 105. fundur,  19. maí 2020.

störf þingsins.

[13:44]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V):

Herra forseti. Við höfum séð dramatískari breytingar á ferðavenjum og vinnumenningu en nokkur hefði trúað. Við höfum bókstaflega séð himnana og lönd lokast og stórtæka tæknivæðingu í skóla og á vinnustað. Núna er ein stærsta spurningin hvað við ætlum að gera þegar aðgerðum vegna Covid linnir. Einhverjar breytingar í samfélaginu eru komnar til að vera, aðrar augljóslega ekki, og um annað vitum við ekki. Mig langar í þessu sambandi að nefna alþjóðasamstarf og alþjóðaviðskipti sem við skynjum núna að er ekki bara af hinu góða heldur beinlínis nauðsyn. Ástandið sýnir okkur svart á hvítu að alþjóðasamstarf ber ekki að forðast heldur fagna. Samstaða okkar hér innan lands hefur haft allt um okkar árangur að segja og samstarf þjóðanna hefur auðvitað sömu þýðingu. Saman erum við sterkari.

Atvinnulíf okkar byggir á fáum stoðum en sterkum, en það gerir okkur því miður veikari fyrir. Þegar þessar sterku stoðir verða fyrir höggi verða afleiðingarnar alvarlegar. Þess vegna er það ekki bara eitthvert hjal þegar talað er um nýsköpun eða að fjárfesta í fjölbreyttara eða auðugra atvinnulífi. Að veðja á háskólamenntun og rannsóknir er lykillinn að fjölbreyttari undirstöðum íslenska efnahagsins. Við sjáum í dag að kvikmyndir og íslensk þáttagerð blómstrar og við eigum að þora að standa með þessum skapandi greinum. Fjölbreyttara atvinnulíf er lykillinn að því að verjast áföllum til frambúðar og hluti af því að sækja fram. Fjölbreyttari erum við sterkari. Sterku greinarnar eru ekki andstaða nýsköpunar. Ferðaþjónustan hefur t.d. verið nýsköpun landsbyggðarinnar og nýsköpun á sér stað í öllum greinum en ekki bara í sprotum, en hana þarf að rækta eins og annað. Hún er áhrifamesta tækið til að styrkja einsleitt atvinnulíf okkar í dag.

Herra forseti. Ég trúi ekki öðru en að markmið stjórnvalda og okkar allra í dag hljóti að vera að styrkja stoðir atvinnulífsins með því að auka fjölbreytileikann þannig að við getum saman þolað óvissu og áföll.