150. löggjafarþing — 105. fundur,  19. maí 2020.

dómstólar o.fl.

470. mál
[16:00]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Örstutt um þetta mál. Eins og komið hefur fram hjá hæstv. dómsmálaráðherra og fleirum hér er um að ræða ákveðna kerfisbreytingu sem felur það í sér að verkefni sem hafa verið hjá endurupptökunefnd færast til endurupptökudómstóls sem lýtur dómstólareglum og þar með er, eins og hæstv. ráðherra tiltók, verið að tryggja að dómsniðurstaða ráði úrslitum í þessum málum en ekki ákvörðun stjórnsýslunefndar. Þarna er um að ræða mikla framför að þessu leyti.

Um leið og viðurkennt er að það sé mikilvægt að úrræði af þessu tagi sé fyrir hendi er engu að síður rétt að hafa í huga að endurupptökumál hljóta eðli málsins samkvæmt jafnan að vera undantekningarmál sem þarf auðvitað að meta út frá skilyrðum laganna. Það þarf að taka tillit til margra þátta en hér er (Forseti hringir.) um að ræða undantekningu frá þeirri meginreglu að mál séu leidd til lykta í hinu almenna dómskerfi.