150. löggjafarþing — 106. fundur,  20. maí 2020.

lítil fyrirtæki í ferðaþjónustu.

[15:07]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra kærlega fyrir ferðasöguna. Hann mætti þá kynna sér frumvarp sem ég lagði fram um stuðning við lítil og meðalstór fyrirtæki þar sem einmitt er tekið á þeim ábendingum sem hann fékk í þeirri ágætu ferð. En mig langar í framhaldi að spyrja: Hefur hann heyrt af því að þessi samþjöppun er nú þegar hafin og getur hann jafnvel nefnt einhver dæmi? Voru frumvörpin og skilyrði fyrir stuðningi rýnd sérstaklega til þess að koma í veg fyrir samþjöppun? Og svo af því að nú liggur fyrir stjórnarfrumvarp sem beinlínis veikir samkeppnislöggjöf á Íslandi langar mig að spyrja samkvæmt orðum Gylfa Magnússonar: Verður látið undan háværum kröfum stórfyrirtækja og samtaka þeirra um að veikja íslenskt samkeppniseftirlit eða fær almenningur að njóta þeirrar verndar sem hann hefur notið til þessa? Með öðrum orðum: Í ljósi kreppunnar sem nú er uppi, getur ráðherra hugsað sér að taka frumvarpið aftur inn á teikniborðið og skoða það með hagsmuni neytenda í huga?