150. löggjafarþing — 106. fundur,  20. maí 2020.

stimpilgjald.

313. mál
[16:24]
Horfa

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf):

Herra forseti. Stundum verður maður hálforðlaus yfir því hvað er að gerast í þessum sal. Þetta er eitt af þeim augnablikum. Er það virkilega svo að ríkisstjórnarflokkarnir þrír telji það forgangsmál í miðjum heimsfaraldri að lækka skatta á fyrirtæki sem kaupa stór skip? Um það snýst þetta. Það er verið að lækka skatta hjá þeim fyrirtækjum, hjá stórútgerðinni þegar hún kaupir stór skip. Þetta er ofan í þá staðreynd að veiðileyfagjöld hafa lækkað um helming síðan þessi ríkisstjórn tók við. Þetta er sérkennileg forgangsröðun en sýnir svo vel hvaða hagsmunir ráða alltaf hér. Þessir sömu ríkisstjórnarflokkar hikuðu ekki við að fella tillögu sem myndi gera námsmönnum kleift að njóta atvinnuleysisbóta í sumar. Það var ekkert mál fyrir Vinstri græna, Framsókn og Sjálfstæðisflokkinn (Forseti hringir.) en þegar kemur að því að lækka skatta á stórútgerðina flýgur það í gegn á methraða — og það í miðjum heimsfaraldri, herra forseti.

Þetta er hneyksli og að sjálfsögðu segi ég nei.