150. löggjafarþing — 108. fundur,  25. maí 2020.

Menntasjóður námsmanna.

329. mál
[19:39]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég var að vísa í endurgreiðslu á námslánum fyrir nám sem viðkomandi getur ekki nýtt sér lengur vegna slyss þannig að það er ekki í náminu sjálfu heldur þegar því er lokið og komið að því að greiða til baka. Ég spurði út í það af því að mér skilst að til standi að setja ákvæði inn í lögin þar sem Lánasjóði íslenskra námsmanna er gert heimilt að halda áfram innheimtu lána, jafnvel eftir að viðkomandi aðili hefur verið lýstur gjaldþrota. Ég velti fyrir mér, ef svo óheppilega vill til að einstaklingur sem lendir í alvarlegu slysi og getur ekki lengur nýtt sér nám sitt, verður jafnvel gjaldþrota, hvort eitthvað í frumvarpinu komi í veg fyrir að Lánasjóður íslenskra námsmanna elti uppi öryrkja til að láta hann endurgreiða námslán af námi sem hann getur ekki nýtt sér lengur.