150. löggjafarþing — 109. fundur,  28. maí 2020.

Menntasjóður námsmanna.

329. mál
[19:11]
Horfa

Frsm. meiri hluta allsh.- og menntmn. (Silja Dögg Gunnarsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir ágæta ræðu og yfirferð. Hann kom víða við í ræðunni en mig langaði kannski til að heyra aftur frá þingmanninum, svo ég skilji hann rétt, mér fannst hann svolítið slá úr og í: Erum við ekki alveg örugglega sammála um að það frumvarp sem hér liggur fyrir framan okkur sé til mikilla bóta fyrir námsmenn? Hér er um að ræða breytingu í þá átt að jafna stuðning og minnka greiðslubyrði og allflestir námsmenn munu koma betur út eftir þessa viðamiklu kerfisbreytingu en staðan er nú. Hér er einnig um að ræða félagslegt jöfnunartæki, það kemur víða fram í frumvarpinu, og einnig er þar mörg nýmæli að finna.

Mig langaði aðeins til að átta mig betur á því sem þingmaðurinn sagði um stúdentahreyfinguna, að hreyfingin hefði komið á fund nefndarinnar og talið sig ekki hafa fengið nógu mikið rými á þeim fundi. Nú skiluðu stúdentar inn umsögn eins og aðrir umsagnaraðilar og hagsmunaaðilar og eins og hv. þingmaður veit þá er það þannig, þegar mál eru til meðferðar hjá nefndum, að fjölmargir hagsmunaaðilar koma fyrir nefndir með umsagnir og oft koma þar fram ólík sjónarmið sem nefndarmönnum ber að vega og meta og taka ákvarðanir sem koma svo til afgreiðslu á þinginu. Ég velti fyrir mér: Finnst þingmanninum að nefndin hefði átt að fara í einu og öllu eftir því sem stúdentar lögðu til og hunsa aðrar ábendingar? (Forseti hringir.) Það er nú ýmislegt fleira hér, ég er með langan lista, en við skulum byrja á þessu.