150. löggjafarþing — 114. fundur,  8. júní 2020.

efnahagslegur ábati af opnun landsins.

[15:59]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Já, við höfum leitast við að teikna upp hagrænu áhrifin af því að hafa annars vegar lokað eða opna. Þetta eru engin raunvísindi, það er ekki hægt að mæla það upp á gramm hver áhrifin verða, heldur er verið að vinna með alveg óteljandi margar breytur, marga óvissuþætti, að því er manni finnst stundum, t.d. um hegðun ferðamanna. Kannanir sýna, svo dæmi sé tekið, ef við horfum bara á þann þáttinn sem snýr að ferðamönnum og mögulegri komu þeirra til landsins, að hinn almenni ferðamaður er ekki eins líklegur og áður til að leggja af stað í ferðalag þrátt fyrir að honum standi ýmsir kostir til boða. Menn munu hafa meiri gætur á sér. Það er heldur ekki hægt að gera lítið úr því að margir hafa orðið fyrir efnahagslegum skakkaföllum. Tekjur margra hafa hrunið, margir hafa misst starfið og eru þess vegna ekki í sömu færum og áður til að fara í ferðalög.

Það nefni ég sem dæmi um óvissuþætti sem hafa áhrif á heildarmyndina. En við vitum hins vegar að okkur munar um alla framleiðsluþættina hér á landi. Eins og sakir standa horfi ég þannig á málið að efnahagslegt verkefni okkar sé að endurheimta störf, skapa ný, búa til ný verðmæti. Við höfum tapað tugum þúsunda starfa og allt það sem getur orðið okkur að gagni til að endurheimta framleiðslukraftinn í landinu þurfum við að sækja. En við erum að reyna að stíga varlega til jarðar hvað þessar opnanir varðar. Við erum sömuleiðis að reyna að skapa sátt með þeim skimunum sem eru í umræðunni þessa dagana til að sýna fram á að við ætlum að fara gætilega og læra við hvert skref hvað gengur vel og hvað þarf mögulega að endurhugsa.