150. löggjafarþing — 116. fundur,  12. júní 2020.

fsp. 4.

[14:06]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegur forseti. Það voru margar rangfærslur í þessari ræðu hv. þingmanns sem ég ætla ekki að elta ólar við hér. Ég veit ekki annað en að svar sé farið frá ráðuneytinu við þessari fyrirspurn sem er komið til þingsins, því hlýtur að verða dreift á næstu dögum. Ráðherrann sem hér stendur hefur aldrei reynt að leyna neinum upplýsingum, síður en svo, heldur hefur þetta snúist um samskipti við Persónuvernd og hvað megi birtast opinberlega. Þingmaðurinn hefur, bæði úr þessum ræðustól og í svörum við fyrirspurnum, verið hvattur til að taka málið upp í nefndum þingsins, kalla eftir öllum þeim gögnum og upplýsingum sem þessu tengjast aftur í tímann. Ég veit ekki annað en að svar sé farið frá ráðuneytinu til þingsins þannig að það hlýtur að birtast á næstu dögum eða þingmaðurinn getur sett sig í samband við stjórn þingsins.