150. löggjafarþing — 116. fundur,  12. júní 2020.

ársreikningar.

447. mál
[15:25]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Herra forseti. Þetta er áhugaverð spurning. Ég held að svarið sé raunverulega: Nei, við ættum ekki að skila sjaldnar heldur mun oftar, jafnvel mörgum sinnum á sekúndu, [Hlátur í þingsal.] vegna þess að tölvur geta gert það fyrir okkur og bókhaldið fer fyrst og fremst fram í gegnum tölvur. Upplýsingaflæðið ætti að vera sjálfvirkt og óheft og ætti í rauninni eingöngu að takmarkast af ljóshraða.

Þessi skil gegna hlutverki gagnvart yfirvöldum en líka hluthöfum fyrirtækjanna. Hluthafarnir verða auðvitað að geta fengið góðar skýrslur þegar þeir biðja um þær. Oft hafa skapast vandræði vegna samsláttar þar sem t.d. eigendur fyrirtækja á Íslandi reyna að skila CFC-skýrslum vegna eigna erlendis en geta það ekki vegna þess að t.d. í Bretlandi er ársskýrslum fyrirtækja skilað eftir að skattskýrslum einstaklinga er skilað hér. Þar verður visst samstuð. Af hverju getum við ekki haft þetta jafnóðum? Mig langar rosalega mikið að tala (Forseti hringir.) um hugmyndir Staffords Beers sem fjallaði mikið um það hvernig væri hægt að sjálfvirknivæða heilu hagkerfin og (Forseti hringir.) gerði áhugaverðar tilraunir með það í Chile 1970–1973.