150. löggjafarþing — 116. fundur,  12. júní 2020.

húsnæðismál .

926. mál
[18:43]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um húsnæðismál þar sem Húsnæðis- og mannvirkjastofnun er veitt heimild til að veita fyrstu kaupendum sem þess þurfa og þeim sem ekki hafa átt íbúð sl. fimm ár lán til að mæta eiginfjárkröfu við kaup á íbúð til eigin nota.

Tilefni frumvarps þessa er að ríkisstjórnin setti það sem eitt af markmiðum sínum í sáttmála um stjórnarsamstarf, sem kynntur var 30. nóvember 2017, að bæta stöðu ungra og tekjulágra á húsnæðismarkaði. Þar segir m.a.:

„Ríkisstjórnin mun fara í aðgerðir sem lækka þröskuld ungs fólks og tekjulágra inn á húsnæðismarkaðinn. Í því augnamiði verða stuðningskerfi hins opinbera endurskoðuð þannig að stuðningurinn nýtist fyrst og fremst þessum hópum.“

Í aðdraganda kjarasamningaviðræðna veturinn 2018–2019 skipuðu stjórnvöld átakshóp um aukið framboð á íbúðum og aðrar aðgerðir til að bæta stöðu á húsnæðismarkaði. Með því setti ríkisstjórnin af stað víðtækt samráð um húsnæðismál með aðkomu heildarsamtaka aðila vinnumarkaðarins, sveitarfélaga, félagsmálaráðuneytis, fjármála- og efnahagsráðuneytis og forsætisráðuneytis.

Átakshópurinn setti fram tillögur í sjö flokkum í alls 40 liðum með skýrslu sem kynnt var 19. janúar 2019. Voru tillögurnar lagðar til grundvallar við gerð svonefndra lífskjarasamninga, samanber aðgerð 18 í yfirlýsingu um stuðning stjórnvalda við lífskjarasamninga, dags. 3. apríl 2019. Er þar kveðið á um að ríkisstjórnin muni vinna að innleiðingu tillagna átakshóps um húsnæðismál í samráði við aðila vinnumarkaðarins og sveitarfélög og að Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, þáverandi Íbúðalánasjóði, verði falið að halda utan um eftirfylgni tillagna átakshópsins í samráði við félagsmálaráðuneytið, fjármála- og efnahagsráðuneyti, forsætisráðuneytið, samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið, umhverfis- og auðlindaráðuneytið og hefur verkefnið fengið heitið „Húsnæði fyrir alla“.

Samhliða þessu var skipaður sérstakur hópur sem skoðaði stöðu fyrstu kaupenda, sem rann síðan inn í þessa vinnu. Sá hópur var undir forystu Frosta Sigurjónssonar, fyrrverandi alþingismanns. Var ein af megintillögum þess hóps að leggja til sérstök hlutdeildarlán að skoskri fyrirmynd.

Eins og áður sagði er þetta hluti af lífskjarasamningunum. Frumvarpið er því mikilvægur liður í aðgerðum ríkisstjórnar Íslands til að greiða fyrir gerð kjarasamninga á almennum vinnumarkaði. Markmið þess er að gera breytingar á lögum um húsnæðismál til að bregðast við þeim bresti sem nú ríkir á húsnæðismarkaði og auðvelda ungu og tekjulágu fólki að eignast eigið húsnæði. Jafnframt er markmið frumvarpsins að styðja við byggingariðnað á Íslandi og fjölga hagkvæmum íbúðum sem henta ungu fólki sem er að kaupa sína fyrstu íbúð. Þrátt fyrir mikla uppbyggingu á íbúðum á undanförnum árum hafa þær íbúðir ýmist verið byggðar á dýrum svæðum eða verið mjög stórar og henta því síður tekju- og eignalágum einstaklingum sem eru að kaupa sína fyrstu íbúð. Verulegur samdráttur hefur orðið í nýframkvæmdum frá árinu 2019 auk þess sem ekki er útséð um langtímaáhrif Covid-19. Því blasir við að verulegur skortur verður á íbúðarhúsnæði eftir aðeins tvö ár. Það er því sérstaklega mikilvægt einmitt nú að koma fram með úrræði sem hvetur til frekari framkvæmda og framboðs á hagkvæmu húsnæði til að koma í veg fyrir húsnæðisskort og draga úr fyrirsjáanlegri niðursveiflu á byggingarmarkaði.

Hlutdeildarlánin verða stór liður í því að fjölga hagkvæmum íbúðum auk þess sem þau auðvelda ungu fólki og tekjulágum að eignast eigið húsnæði.

Frumvarpið var samið í samvinnu Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar og félagsmálaráðuneytisins og byggir á vinnu laganefndar sem skipuð var haustið 2019 og skipuð var fulltrúum fjármála- og efnahagsráðuneytis, félagsmálaráðuneytis og Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar. Víðtækt samráð var einnig haft við aðila vinnumarkaðarins og Samband íslenskra sveitarfélaga. Það var sérstaklega ánægjulegt í þeirri vinnu að finna hversu góð samstaða var með stjórnvöldum og aðilum vinnumarkaðarins um að fara þessa leið og einnig í megindráttum um útfærslu hennar. Nú síðustu vikur hefur frumvarpið einnig verið til skoðunar og frekari vinnslu í vinnuhópi á vegum forsætisráðuneytis, fjármála- og efnahagsráðuneytis og félagsmálaráðuneytis.

Virðulegi forseti. Með frumvarpinu er gert ráð fyrir því að nýjum kafla, VI. kafla A, verði bætt inn í lög um húsnæðismál. Kaflinn mun bera heitið Hlutdeildarlán og inniheldur hann fjórar nýjar greinar þar sem gerð er grein fyrir skilyrðum fyrir lánveitingu og skilmálum hlutdeildarlána. Eins og nafnið ber með sér svarar lánsfjárhæð tiltekinni hlutdeild í keypti fasteign. Þegar kemur að greiðslu lánsins nemur endurgreiðslufjárhæð þess sama hlutfalli af verðmæti eignarinnar og upphafleg lánveiting nam. Hafi fasteignaverð hækkar fjárhæð lánsins og endurgreiðslunnar þannig sem því nemur. Hafi fasteignaverð hins vegar lækkað verður endurgreiðslan að sama skapi lægri.

Lánin eru eingöngu ætluð kaupendum undir ákveðnum tekjumörkum sem eru að kaupa sína fyrstu eign eða hafa ekki átt fasteign sl. fimm ár og þurfa aðstoð við að brúa eiginfjárkröfu til að komast í eigið húsnæði. Þannig er úrræðinu beint að ungu fólki sem er að stíga sín fyrstu skref á fasteignamarkaði en er einnig ætlað til að koma til móts við þá sem misstu heimili sín í kjölfar efnahagshrunsins og hafa verið fastir á leigumarkaði síðan. Með þessu er húsnæðisstuðningi stjórnvalda í auknum mæli beint að tekjulægri hópum með það að markmiði að þeir geti eignast eigið húsnæði og stuðla þannig að húsnæðisöryggi þeirra og fjárhagslegu sjálfstæði, sem minnkar líkur á því að veita þurfi húsnæðisstuðning til framtíðar.

Gert er ráð fyrir því að hlutdeildarlánin nemi almennt 20% kaupverðs á móti 5% eiginfjárframlagi kaupandans, en heimilt er að veita allt að 30% hlutdeildarlán til tekjulægstu hópanna.

Sett eru ákveðin skilyrði sem umsækjandi um hlutdeildarlán þarf að uppfylla. Hann þarf að standast greiðslumat vegna húsnæðisláns sem tekið verður til að fjármagna kaupin og afborganir af þeim lánum mega ekki nema meira en 40% af ráðstöfunartekjum viðkomandi einstaklings. Umsækjandi þarf alltaf að eiga fyrir að lágmarki 5% af kaupverði fasteignarinnar og hann þarf að sýna fram á að hann geti ekki keypt fasteign án stuðnings.

Gert er ráð fyrir því að hlutdeildarlánið verði tryggt með öðrum veðrétti í eigninni og er það afborgunarlaust og ber að jafnaði ekki vexti á lánstímanum. Ef tekjur lántaka fara upp fyrir tekjumörk hlutdeildarlánanna í þrjú ár í röð hefjast vaxtagreiðslur af láninu. Með þessu er tryggt að stuðningur stjórnvalda nýtist eingöngu þeim sem þess þurfa. Við ákvörðun vaxtanna tekur stjórn Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar mið af húsnæðiskostnaði lántaka.

Lánið er svo endurgreitt við sölu eignarinnar, þó ekki síðar en að 25 árum liðnum, en þá má ætla að lántaki hafi greitt niður lán sem tekið var til kaupanna og eigi kost á hagstæðari endurfjármögnun. Lántaki getur þó greitt lánið fyrr ef hann kýs svo, t.d. ef honum býðst hagstæð endurfjármögnun. Reynslan bæði í Skotlandi og Englandi er reyndar sú að meðallíftími þessara lána er einungis um fimm ár. Þessi lán hafa verið nýtt í Skotlandi og Englandi og höfum við notið mjög góðs af samstarfi við ráðuneyti húsnæðismála í þessum tveimur löndum, og þá sérstaklega í Skotlandi.

Hlutdeildarlán eru eingöngu lánuð til nýrra og hagkvæmra íbúða. Það er gert með það að leiðarljósi að úrræðið hafi sem minnst áhrif á fasteignaverð almennt og hvetji ekki til hækkunar húsnæðisverðs á fasteignamarkaði.

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að sett verði í reglugerð ákvæði um hámarksverð íbúða miðað við stærð þeirra og einnig um herbergjafjölda miðað við fjölskyldustærð. Með því að ráðherra geti breytt skilyrðunum í reglugerð er betur hægt að stýra úrræðinu miðað við aðstæður á markaði, með það að markmiði að það hafi sem minnst áhrif á verðmyndun á fasteignamarkaði en nái á sama tíma einu af markmiðum úrræðisins sem er að auka hvata til að byggja hagkvæmt íbúðarhúsnæði og tryggja aukið framboð slíks húsnæðis hér á landi.

Áður en hlutdeildarlán er veitt verður umsækjandi að hafa fest kaup á íbúð sem hefur þegar verið samþykkt af Húsnæðis- og mannvirkjastofnun sem hagkvæm íbúð á grundvelli samnings byggingaraðilans við stofnunina. Gert er ráð fyrir því að stofnunin semji við verktaka sem byggja íbúðir sem verða viðurkenndar sem hagkvæmar íbúðir. Heimildir Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar til lánveitingar hlutdeildarlána munu takmarkast við heimildir í fjárlögum til útlánaflokksins hverju sinni. Hafi heimild samkvæmt fjárlögum verið fullnýtt er Húsnæðis- og mannvirkjastofnun óheimilt að samþykkja umsókn um lán þrátt fyrir að umsækjandi uppfylli skilyrði.

Gert er ráð fyrir að hlutdeildarlán verði veitt til kaupa á 400 hagkvæmum nýbyggingum á ári og að úrræðið verði endurmetið að tíu árum liðnum. Þessi tala, 400 íbúðir, er fundin út, m.a. í samstarfi við atvinnulífið sjálft, við iðnaðinn sjálfan, og var talið að þetta væri sá íbúafjöldi sem mögulegt væri að byggja miðað við fyrirliggjandi áætlanir.

Virðulegur forseti. Meginmarkmið stjórnvalda í húsnæðismálum er að stuðla að húsnæðisöryggi og að íbúar landsins hafi raunverulegt val um búsetuform. Til að svo megi verða þurfum við að tryggja aukinn stöðugleika á húsnæðismarkaði og stuðla að því að jafnvægi ríki á milli framboðs og eftirspurnar á húsnæðismarkaði. Hlutdeildarlán geta bæði mætt framboðs- og eftirspurnarhliðinni. Vegna þeirra skilyrða sem sett eru í frumvarpinu um hagkvæmar íbúðir má vænta þess að framboð aukist verulega á hagkvæmum íbúðum og jafnframt að framboð aukist á íbúðum sem henta fyrstu kaupendum, en samkvæmt íbúðaþarfagreiningum og húsnæðisáætlunum sveitarfélaga er þörf fyrir hagkvæmt húsnæði um allt land. Þessi uppbygging mun einnig skapa mörg störf á byggingarmarkaði sem ekki er vanþörf á við þær aðstæður sem nú ríkja á íslenskum vinnumarkaði.

Hlutdeildarlán eru til þess fallin að styðja við þá sem þurfa aðstoð við öflun eigin húsnæðis. Nýleg lífskjararannsókn sýnir að tekjur fólks á aldrinum 20–29 ára hafa lækkað verulega sem hlutfall af tekjum fólks á fimmtugsaldri. Sífellt fleiri fyrstu kaupendur þurfa aðstoð foreldra og annarra aðstandenda til að brúa eiginfjárkröfu við fasteignakaup en það eru ekki allir í þeirri stöðu að geta sótt í slíka varasjóði. Rannsóknir sýna þá að nær 90% leigjenda kjósa frekar að búa í eigin húsnæði. Með hlutdeildarlánum getum við aukið aðgengi tekjulágra fjölskyldna og fyrstu kaupenda að öruggu og hagkvæmu íbúðarhúsnæði á viðráðanlegu verði. Við þurfum öll þak yfir höfuðið og húsnæðisöryggi er ein af meginstoðum í velsældarmarkmiðum ríkisstjórnarinnar.

Virðulegi forseti. Ég hlakka til umræðunnar og legg til að að henni lokinni verði frumvarpinu vísað til hv. velferðarnefndar Alþingis.