150. löggjafarþing — 117. fundur,  15. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[21:38]
Horfa

Frsm. meiri hluta um.- og samgn. (Vilhjálmur Árnason) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Nei, ég held að það sé alveg augljóst að kostnaðurinn er ekki alveg fullrammaður inn enda snýst þetta ekki bara um borgarlínu. Höfuðborgarsáttmálinn er um miklu fleiri framkvæmdir. Því tel ég svo mikilvægt að hinu opinbera hlutafélagi, sem er líka á dagskrá í dag, verði komið á fót til að sú vinna fari af stað, fullmótuð af báðum samstarfsaðilum.

Í dag fer þessi vinna mestmegnis fram með samstarfssamningi við Höfuðborgarstofu eða Borgarlínustofu þannig að ég tel að það sé eðlilegur taktur í þessari stefnumörkun. Þá vil ég benda á að samkvæmt samgönguáætlun verða alvöruframkvæmdir í borgarlínunni ekki komnar á fullt skrið á næstu þremur árum en þá á að vera búið að endurskoða samgönguáætlun. Í ferlinu verður áætlunin því endurskoðuð nokkrum sinnum. Þá verður hægt að uppfæra hana miðað við nýjustu upplýsingar, úttektir og rannsóknir.