150. löggjafarþing — 117. fundur,  15. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[23:50]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Bryndísi Haraldsdóttur andsvarið. Íbúar þessara nágrannasveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu eru líka skattgreiðendur þannig að ég vil leyfa mér að taka upp hanskann fyrir þá af og til ef ég tel að farið sé óvarlega með fjármuni hins opinbera.

Hv. þm. Bryndís Haraldsdóttir kom inn á það að víðtækur stuðningur væri við málið hjá Sjálfstæðismönnum í öllum sveitarfélögum í kringum höfuðborgarsvæðið. Það vill svo til að það virðist vera mjög hóflegur stuðningur við þetta hjá Sjálfstæðismönnum í Reykjavíkurborg. En það er kannski ekki atriði sem ég ætla að fara mikið út í hérna.

Hv. þingmaður heldur því fram að mikil umræða hafi verið um málið og lítil andstaða. Ég veit að hv. þingmanni ber engin skylda til að svara spurningu minni eða þeim vangaveltum sem ég set fram núna, en telur hv. þingmaður að til að mynda fréttir síðustu daga bendi til þess að bæjarfulltrúar, kjörnir fulltrúar á Seltjarnarnesi, séu mjög lukkulegir með samstarfið við Reykjavíkurborg? Bara til minnis nefni ég strætóstoppistöð úti á miðri Geirsgötu og fréttir af sex gönguljósum á götunni meðfram sjónum, sem er nú alveg stolið úr mér í augnablikinu hvað heitir en leiðir út á Seltjarnarnes. Þar verður alveg örugglega tryggt að ljósastýring þessara sex ljósa verði þannig að enginn ökumaður muni komast þar í gegn öðruvísi en að stoppa a.m.k. á fernum ljósum ef sagan kennir manni eitthvað í tengslum við ljósastýringu á höfuðborgarsvæðinu. Og bara af því að ég kom ekki inn á það í ræðu minni vegna tímaleysis þá er ég sérstakur áhugamaður um að sá hluti hins svokallaða samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins sem snýr að því að uppfæra ljósastýringu gatnakerfisins (Forseti hringir.) komist til framkvæmda eins fljótt og nokkur kostur er.