150. löggjafarþing — 118. fundur,  16. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[18:32]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Herra forseti. Ég ákvað að stökkva aðeins á hv. þingmann í ljósi þess að hann fór að tala um þann mikla sannleika að samgönguuppbygging á höfuðborgarsvæðinu hefur lengi setið á hakanum. Þar hefur vantað töluvert í uppbyggingu og hefur það aðallega verið vegna þess að ríkisstjórnir hvers tíma hafa ekki viljað koma í neinum mæli að þeirri uppbyggingu og hafa skilið þetta eftir hjá borginni. En í ljósi þessa og í ljósi þeirrar afstöðu sem flokkur hv. þingmanns hefur tekið, eftir því sem maður hefur heyrt, langar mig til að forvitnast um framtíðarsýn hans í samgöngumálum höfuðborgarinnar. Þá á ég bæði við það hvernig komast eigi á milli staða innan borgarinnar og einnig helstu leiðirnar út úr borginni. Því hefur stundum verið stillt upp eins og einhvers konar ríg milli þeirra sem vilja fjölga vegum og halda hlutverki og sessi einkabílsins sem mestum, og hinna sem eru andstæðingar bíla og svoleiðis. Ég held að það sé ótrúleg einföldun og í raun rangt. Þetta snýst um að fólk hafi sveigjanlega valkosti þegar kemur að samgöngum og hefur það batnað töluvert á undanförnum árum. En í ljósi þess að deilunum er oft stillt þannig upp væri rosalega áhugavert að heyra afstöðu hv. þingmanns og framtíðarsýn. Snýst þetta bara um að halda núverandi kerfi eða er eitthvað annað og betra sem hægt væri að leita eftir?