150. löggjafarþing — 122. fundur,  22. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[15:47]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Ég vil aðeins koma inn á það sem hv. þm. Ólafur Ísleifsson nefndi í ræðu sinni rétt í þessu. Hann ræddi um að Sjálfstæðisflokkurinn væri klofinn í málinu. Það er alveg augljóst og ekki hefur heldur ríkt eining um verkefnið innan borgarstjórnar eins og við þekkjum. Það er rétt að rifja það aðeins upp. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn hafa, ekki þó allir, gagnrýnt verkefnið og sérstaklega fjármögnun þess en gert er ráð fyrir að fjárfesta fyrir 120 milljarða kr. eins og komið hefur fram í umræðum hér og að ríkið muni leggja fram 45 milljarða, sveitarfélögin 15 milljarða og sérstök fjármögnun, sem að öllum líkindum samanstendur af veggjöldum og sölu ríkiseigna, standi undir 60 milljörðum.

Í bókun Sjálfstæðismanna í borgarstjórn segir, með leyfi forseta:

„Ljóst er að 60 milljarðar verða innheimtir af íbúum höfuðborgarsvæðisins án þess að útfærsla gjaldtöku slíks höfuðborgarskatts liggi fyrir. Sú fjárhæð sem fyrirhugað er að taka úr vösum skattgreiðenda nemur sem samsvarar næstum því nýjum Landspítala. Mikilvægt er að komið verði í veg fyrir tvísköttun á íbúa, auknar álögur í formi veggjalda og að jafnræðis verði gætt í gjaldtöku meðal landsmanna.“

Og áfram segir:

„Síðast en ekki síst hefur ekki verið gert arðsemismat sem er grundvallarforsenda við ákvarðanatöku framkvæmda. Staðreyndin er sú að vinna við samgöngur undanfarin ár hefur einkennst af því að ráðamenn henda upp hugmyndum á hlaupum. Það er gert án þess að gera arðsemismat og forgangsraða.“

Það er athyglisvert að skoða þær umræður sem hafa farið fram í borgarstjórn Reykjavíkur um þetta mál. Það er einnig athyglisvert að skoða bókun fulltrúa Miðflokksins í borgarstjórn, Vigdísar Hauksdóttur, en hún gerir alvarlegar athugasemdir við framkvæmd borgarlínu. Hún segir, með leyfi forseta:

„Verkefnið er allt í þoku, draumórum og óvissu. Fyrir það fyrsta er ekki hægt að binda hendur kjörinna fulltrúa í Reykjavík og fjárstjórnarvald þeirra næstu fjögur kjörtímabil með þeim fjárhagsskuldbindingum sem gert er ráð fyrir. Áður en samkomulagið er farið af stað þá er búið að búa til nýja stofnun verkefnastofu borgarlínu og nú þegar hafa verið ráðnir þrír einstaklingar til starfa.“

Og hún heldur áfram:

„Í drögunum er fjallað um að stofna eigi nýtt félag á báðum stjórnsýslustigum, þ.e. ríkis og sveitarfélaganna. Það er fordæmalaust en er alveg sama uppskrift og ohf-un ríkisins og bs. félög sveitarfélaga, algjört svarthol sem tekur til sín mikið fjármagn sem enginn veit hvert fer.“

Við höfum svo sem séð það áður í borgarstjórn Reykjavíkur að verið er að setja óhemjupeninga í verkefni án þess að vita hvert þau fara. Þar er hið svokallaða braggamál frægt.

Borgarfulltrúinn heldur áfram:

„Aðkoma og eftirlitshlutverk kjörinna fulltrúa verður ekkert þar sem verið er að fara grísku leiðina. Þetta samkomulag er mjög vanhugsað og vantar allar útfærslur. Í stuttu máli þá er borgarlína fjárhagsleg martröð fyrir skattgreiðendur.“

Það er alveg ljóst, herra forseti, að borgarfulltrúar í Reykjavík ættu að þekkja vel til þessa máls. Það er hreint og beint sláandi að skoða þær bókanir sem ég hef verið að vísa í, þar sem menn lýsa því yfir að mikil fjárhagsleg óvissa sé varðandi verkefnið og verið að fara út í óútfærða skattlagningu á höfuðborgarbúa og allt í mikilli óvissu. Hér á hins vegar að ræða þetta á sem allra skemmstum tíma að mati meiri hlutans og ríkisstjórnarinnar og helst klára það bara í gær, útgjöld upp á tugi milljarða, og ríkissjóður þarf að standa straum af því að stórum hluta. Það verður að gera þá kröfu, herra forseti, að menn fari í vandaða umræðu um þetta mál sem hefur því miður verið bent á að er ekki af hálfu ríkisstjórnarflokkanna.

Ég sé að tími minn er liðinn, herra forseti, og ég óska eftir að verða settur aftur á mælendaskrá.