150. löggjafarþing — 122. fundur,  22. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[21:04]
Horfa

Anna Kolbrún Árnadóttir (M):

Hæstv. forseti. Ég er komin að því að fjalla um Heildarstefnu í almenningssamgöngum milli byggða, sem kom út í október á síðasta ári og er eitt af hengiritunum við samgönguáætlun. Þar er fjallað um að ríki, sveitarfélög og einkafyrirtæki reki almenningssamgöngur á Íslandi með ýmsum hætti og miðast þessi stefna við aðkomu að þeim leiðum sem ríkið kemur að með beinum hætti, þ.e. á milli byggða. Þetta er sagt vegna þess að almenningssamgöngur innan einstakra sveitarfélaga eru á forræði þeirra. Í þessu skjali er tekin sú stefna að skilgreina þá samgönguþjónustu sem býður upp á reglubundna farþegaflutninga á ákveðinni leið eftir fyrir fram birtri áætlun að lágmarki níu mánuði á ári og séu samfélagslega mikilvægir fyrir byggðir landsins, sem almenningssamgöngur.

Það er vitað að almenningssamgöngur þrífast best á fjölmennum svæðum þar sem byggð er þétt. Ísland er á hinn bóginn fámennt og við vitum að íbúaþéttleiki utan höfuðborgarsvæðisins er með því lægsta sem gerist í Evrópu. Það þýðir að erfitt getur verið að reka almenningssamgöngur og þess vegna er byggðaþróun mikilvæg ástæða þess að ríkið komi að almenningssamgöngum á landsbyggðinni. Segja má að það sé gert til þess að viðhalda byggð.

Þegar við ræðum almenningssamgöngur, eins og við höfum gert hér undanfarið, eru það þrír samgöngumátar, ferjur, flug og almenningsvagnar. Hver ferðamáti um sig skiptir miklu máli en samt sem áður þarf að hafa ákveðna heildarsýn í huga. Það er Vegagerðin sem heldur í alla þessa þræði og er ætlast til þess að lykilviðfangsefni, eins og það er kallað hér í þessu plaggi, tengi byggðir saman og auki aðgengi og jafnræði íbúa. Það er sem sagt mikilvægt að þjónusta styrkist og farþegum fjölgi og þessi samgöngumáti og íbúaþróun geti orðið jákvæð, þ.e. að ekki dragi meira saman. Talin eru upp lykilviðfangsefni sem horfa þarf til á næstu árum og ég ætla að fá að lesa þau hér upp:

„1. Heildstætt leiðakerfi á lofti, láði og legi tengist saman og bjóði samþættar leiðir milli staða.

2. Gott aðgengi verði að upplýsingum um leiðir milli áfangastaða og farmiðakaup verði auðvelduð.

3. Tryggja að ferðamátinn sé samkeppnishæfur.

4. Öryggi farþega á ferðalögum sem og á biðstöðvum, flugstöðum og ferjuhöfnum verði tryggt.

5. Aðgengi allra að þjónustunni, þar með talið fatlaðs fólks og hreyfihamlaðs, verði eins og best verður kosið.

6. Tryggja samræmingu ferðamátanna og örugga framkvæmd þjónustunnar.“

Það er ákveðinn tilgangur sem felst í þessari heildarstefnu og fjallar megintilgangurinn um bætt aðgengi þannig að fólk geti komist til og frá vinnu eða skóla eða geti sótt sér þjónustu.

Almenningssamgöngur hafa það grunnhlutverk að tryggja aðgengi og hreyfanleika fólks. Hafa þarf í huga að það verður að vera óháð fjárhag. Öflugar almenningssamgöngur tengja saman og jafna stöðu fólks og stækka þar með atvinnu- og skólasóknarsvæði og auka aðgengi að verslun og þjónustu. Það er fjallað um að hafa þurfi í huga að ferðatími þeirra sem lengst búa frá miðstöð stjórnsýslu höfuðborgarsvæðisins sé ásættanlegur.

(Forseti hringir.) Ég bið hæstv. forseta um að setja mig aftur á mælendaskrá.