150. löggjafarþing — 122. fundur,  22. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[23:49]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M):

Hæstv. forseti. Þegar ræðutíma mínum lauk síðast var ég að vitna í umsögn frá Samtökum ferðaþjónustunnar, sem er mjög athyglisverð. Ég ætla að halda áfram þar sem frá var horfið en þar segir, með leyfi forseta:

„Óhætt er að segja að ferðaþjónustufyrirtæki hafi ekki skemmtilega reynslu af þeirri innheimtu gjalda sem þegar er komin til framkvæmda. Nægir í því samhengi að vísa til framkvæmdar innheimtu veggjalda í Vaðlaheiðargöngum og stöðugjalda í þjóðgörðum og í einkareknum bílastæðahúsum. Vaðlaheiðargöng njóta þeirrar sérstöðu að þeim er lögum samkvæmt heimilt að leggja veggjald á skráða eigendur eða umráðamenn ökutækja sem um göngin fara. Þjóðgarðar og einkarekin bílastæðahús hafa innheimt vangreidd gjöld á grundvelli þeirrar löglíkindareglu að skráður eigandi eða umráðamaður hafi líklega nýtt stöðureit án þess að greiða fyrir. Slík regla á hins vegar engan veginn við í tilviki ökutækjaleigna þar sem segja má að löglíkindareglan sé í raun þveröfug, það eru löglíkindi fyrir því að skráður eigandi eða umráðamaður hafi ekki nýtt stöðureit án greiðslu. Í ljósi þess hafa ökutækjaleigur á vettvangi SAF alfarið hafnað greiðslu krafna sem settar hafa verið fram á ólögfestum grundvelli og utan samninga.

Endurinnheimtu gjalda af leigutökum fylgir töluvert óhagræði og kostnaður fyrir ökutækjaleigurnar sem í sumum tilvikum þurfa að halda úti heilum starfsmanni sem einvörðungu hefur það hlutverk að greiða úr flækjum og endurkrefja leigutaka um veggjöld og stöðugjöld í þjóðgörðum og göngum. Ökutækjaleigunum tókst að greiða að miklu leyti úr flækjunum í samráði við þjóðgarðinn á Þingvöllum og hafa í raun tekið að sér milligöngu um innheimtu stöðugjalda sem falla til í honum.

Í grunninn hefur reynsla ökutækjaleignanna hins vegar leitt skýrlega í ljós að það er hvorki skilvirkt né hagkvæmt að ná fram innheimtuhagræði gjalda af ökutækjum með því að færa áhættuna af réttum skilum yfir á ferðaþjónustufyrirtæki. Þetta verður að hafa í huga ef til þess kemur að rætt verði um að eigendur ökutækja verði gerðir gjaldskyldir. Að framangreindu sögðu er afstaða SAF gagnvart innheimtu veggjalda skýr: Ábyrgð á greiðslu gjaldanna verður að hvíla á ökumanni sjálfum og í tilviki ferðaþjónustufyrirtækja kemur einvörðungu til greina að þau taki ábyrgðina á sig á grundvelli samnings sem m.a. tryggir að áhætta af vangreiðslu gjalda verði óbætt ekki borin af fyrirtækjunum. Framangreindu til viðbótar telja SAF sérstakt tilefni til að stjórnvöld beiti sér fyrir því að álagningar- og innheimtukerfi veggjalda verði samræmd og geti átt snurðulaus samskipti við bókhalds- og reikningakerfi ferðaþjónustufyrirtækja. Einungis með slíku móti verður skilvirkni álagningar og innheimtu tryggð.

Á vettvangi SAF hefur töluvert verið rætt um gjaldflokka veggjalda, einkum með tilliti til ökutækja sem eru þyngri en 3,5 tonn að eigin þyngd. Bent hefur verið á að ekki virðist skipta máli hvort þyngd ökutækis nemi t.d. 3,6 tonnum að eigin þyngd eða 47 tonna heildarþyngd, […]. Að mati SAF er þessi staða einfaldlega hvorki sanngjörn né málefnaleg og því telja samtökin mjög mikilvægt að þetta verði haft í huga (Forseti hringir.) við ákvörðun gjaldskrár veggjalda.“

Hæstv. forseti. Ég bið um að verða settur aftur á mælendaskrá.