150. löggjafarþing — 128. fundur,  26. júní 2020.

samvinnuverkefni um vegaframkvæmdir.

662. mál
[11:28]
Horfa

Frsm. meiri hluta um.- og samgn. (Ari Trausti Guðmundsson) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka andsvarið. Hér er annar grundvallarmisskilningur á ferðinni. Áður en við hv. þingmaður urðum þingmenn vorum við sennilega með misjafnar tekjur. Við skulum bara segja að við höfum ekið sams konar bíl. Við borguðum bensín- og olíugjaldið eftir akstri, án tillits til tekna, og erum búnir að gera það áratugum saman. Ef við ætlum að fara að agnúast út í það og tekjutengja hefðum við átt að gera það með hitt fyrir löngu síðan. Auðvitað fer þetta einfaldlega eftir akstri og ábatinn er augljós eins og ég fór yfir áðan. Ég get því ekki séð að þetta eigi við rök að styðjast, þessar áhyggjur af því að veggjöld séu ekki tekjutengd, sem eru náttúrlega ekki skattheimta. Skatturinn sem við greiðum og höfum greitt, bensín- og olíugjaldið, hefur aldrei verið tekjutengdur.