150. löggjafarþing — 128. fundur,  26. júní 2020.

framhald þingstarfa.

[13:36]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Það hefur því miður orðið lenska hér síðustu árin að þinglok verði sífellt undarlegri og flóknari. Menn hafa gengið svo langt að ekki er nóg lengur að menn setjist niður og sammælist um hluti heldur skrifa menn núorðið nafn sitt undir til að meiri líkur séu til þess að samkomulag haldi.

Í því samtali sem formenn flokkanna áttu hér fyrir nokkrum vikum, og snerist um það að stefna að því að ljúka þingi í kringum 25. júní, plús mínus einhverja daga, lá auðvitað undir að klára þau mál sem væru klár frá þinginu, stjórnarfrumvörp, og um það var rætt. Tvö eða þrjú mál voru tekin sérstaklega til hliðar. Þau eru farin og reyndar miklu fleiri mál. Það ætti ekki að koma nokkrum manni á óvart að starfsáætlun sé tekin úr sambandi. Síðan er það í höndum okkar (Forseti hringir.) allra, allra flokka jafnmikið, að sýna vilja til þess að klára hér lýðræðislega þá vinnu sem við höfum lagt á okkur í allan vetur og (Forseti hringir.) fara inn í hlé sumarsins. (Forseti hringir.) Ég held að allir ættu að líta í eigin barm hvað það varðar.