150. löggjafarþing — 128. fundur,  26. júní 2020.

framhald þingstarfa.

[13:42]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Virðulegur forseti. Mig langar að nefna það, í samhengi við orð hv. þm. Birgis Ármannssonar, að það er auðvitað undir fundarstjórn forseta hverju sinni komið hvernig umræðum um mál er stýrt, eins og í þessu tilviki um samgönguáætlun sem hv. þingmaður vísaði til. Það lá auðvitað fyrir að viðræður væru í gangi um að ná bærilegri lendingu, sem tókst og allt jákvætt um það að segja. Lendingin tengist auðvitað næsta máli á eftir um stofnun opinbers hlutafélags en forseta er auðvitað í lófa lagið að taka mál af dagskrá og fresta umræðunni á meðan unnið er að samkomulagi. Það verður auðvitað að vera á ábyrgð forseta hverju sinni ef umræðan tekur lengri tíma en áður var áætlað. En svo verður að halda því til haga að stór hluti þeirrar umræðu sem átti sér stað hér um samgönguáætlun átti sér stað utan áður áætlaðs þingfundatíma og eyddi ekki tíma frá nokkrum sköpuðum hlut.