150. löggjafarþing — 128. fundur,  26. júní 2020.

framhald þingstarfa.

[13:46]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Enn og aftur finnst mér leiðinlegt að við séum að ræða þessi mál hér í þingsal fyrir framan þjóðina. Ég hef fulla samúð með störfum hv. þingmanna sem eru þingflokksformenn og veit að hafa verið að leggja sig alla fram við að reyna að ná hér einhverjum lausnum. En ég verð að viðurkenna það sem almennur óbreyttur þingmaður að mér finnst líka mjög sérstakt þegar verið er að semja þannig um og krafan er slík að allir flokkar í stjórnarandstöðu eigi að fá eitt mál afgreitt, algerlega óháð stærð flokka. Hér talaði hv. þm. Inga Sæland fyrir Flokk fólksins, þar sem í eru tveir þingmenn, um að mál sem hún vill gjarnan fá … (Gripið fram í.) Augnablik, hv. þingmaður. Ég á líka þingmál hér inni sem eru föst í nefndum og þau kosta ekki neitt og það eru frábær mál. En það kemst ekkert að í samningaviðræðunum. Það er fullt af æðislegum þingmannamálum hér úti um allt. Mér finnst líka að það þurfi aðeins að horfa á þetta í öllu samhenginu þegar við erum að reyna að ná saman. (Forseti hringir.) En svo óska ég bara hv. þingmönnum sem eru að reyna að ná samkomulagi fyrir okkar hönd góðs gengis (Forseti hringir.) í því að ná eitthvað utan um þetta því að þetta gengur ekki svona.