150. löggjafarþing — 128. fundur,  26. júní 2020.

framhald þingstarfa.

[13:53]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Forseti. Í ljósi þess að hv. þm. Birgir Ármannsson leitaðist við að breyta þessu í einhvers konar fyrirspurnartíma tel ég mér skylt að bregðast við fyrirspurn hv. þingmanns og benda á hið augljósa. Hinn reyndi hv. þingmaður veit það mætavel að þegar líður að lokum þingstarfa þá eiga umræður það til að lengjast. Þetta vissi hv. þingmaður 2. júní, þetta vissi hann fyrir tíu árum, þetta vissi hann fyrir 20 árum. En ef við lítum til sögunnar og skoðum t.d. stjórnarandstöðu áranna 2009–2013, sem hv. þingmaður þekkir vel, eða stjórnarandstöðu vinstri flokkanna, ég tala nú ekki um Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, þá er Miðflokkurinn skipaður níu hlédrægum friðardúfum sem leitast eingöngu við að miðla málum því að harkan sem hefur verið beitt á þessum tímapunkti hér á árum áður á sér ekki hliðstæðu nú. Ég hvet því menn til þess að leita sátta í þessu máli og minni á að ef hv. þingmenn Pírata og Flokks fólksins vilja ekki láta vísa málum sínum til ríkisstjórnarinnar, hvers vegna ekki að leyfa þeim bara að fara með málið í atkvæðagreiðslu? Stjórnin getur þá fellt þau ef hún vill ekkert með þau hafa.