150. löggjafarþing — 128. fundur,  26. júní 2020.

samvinnuverkefni um vegaframkvæmdir.

662. mál
[15:58]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V) (andsvar):

Herra forseti. Mér fannst hv. þingmaður koma í andsvari sínu inn á sjónarmið sem eru að mínu mati fullkomlega gild. Leiðin sem er farin í frumvarpinu er að menn fari í þau verkefni sem eru í einhverjum skilningi auðveldust, tilbúnust og þar sem hugsanlega, eins og hv. þingmaður grípur hér fram í og segir, er auðveldast að setja upp tollheimtuhlið í eiginlegum eða óeiginlegum skilningi til að geta haft tekjur af verkefninu. Ég held að þetta velti á endanum á einhvers konar hagsmunamati eins og hv. þingmaðurinn var að lýsa. Ég held að við séum ekki að fara þá leið að öll samgönguverkefni í landinu endi í einhvers konar samvinnuverkefnum. Ég held að engum detti það í hug. Það er auðvitað frumskylda stjórnvalda eða ríkisins að sjá til þess að samgöngur séu viðunandi eða góðar, ætti ég kannski frekar að segja, alls staðar. Það er frumskyldan. (Gripið fram í.) PPP getur verið verkfæri til að flýta því að hægt sé að sinna þeirri skyldu. Þá getur einmitt mjög vel komið til greina að menn horfi á þær framkvæmdir sem eru neðar á framkvæmdalistanum út frá öllum ábata- og hagkvæmnissjónarmiðum en eru samt brýn og mikilvæg fyrir þá sem hlut (Forseti hringir.) eiga að máli. Þá gætu farið saman þeir hagsmunir fyrir ríkið (Forseti hringir.) að geta sinnt skyldu sinni og viðkomandi að fá úrbæturnar (Forseti hringir.) og vera þess vegna jafnvel tilbúnir til að þurfa að greiða fyrir það, til þess einmitt að fá það mörgum árum fyrr.