150. löggjafarþing — 129. fundur,  29. júní 2020.

samvinnuverkefni um vegaframkvæmdir.

662. mál
[10:26]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Við í Miðflokknum styðjum auknar samgönguframkvæmdir en okkur líkar ekki sú útfærsla að ríkisstjórnin komi hér með hvert frumvarpið og stjórnarmálið á fætur öðru varðandi veggjöld, sem eru í raun og veru algerlega óútfærð. Við leggjum áherslu á að veggjöld verði ekki lögð á nema til komi lækkun annarra gjalda til móts við það og að fjárhæð veggjalda liggi miklu ljósar fyrir en hér er. Að tekið verði á margfeldisáhrifum og þetta mál verði skýrt út fyrir þjóðinni áður en það verður lagt fram í því formi eins og hér. En það skýtur einnig skökku við að hér á höfuðborgarsvæðinu eigi að fjármagna heilmiklar framkvæmdir með sölu ríkiseigna, þar á meðal Keldnalandsins og hugsanlega Íslandsbanka, til að fjármagna og leggja í stórfé til borgarlínu, á meðan þetta á að gerast úti á landi, og að gjaldtaka á Sundabraut sé þar inni líka.