150. löggjafarþing — 129. fundur,  29. júní 2020.

lyfjalög.

390. mál
[10:41]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Með eldri lögum var verðlagning lausasölulyfja gefin frjáls og fyrir rúmum áratug mátti fyrst selja vægustu styrkleika af nikótín- og flúorlyfjum í verslunum en ekki væg verkjalyf, ofnæmislyf eða magalyf. Þar standa íslenskir neytendur skör neðar en Danir, Norðmenn og Svíar. Auðvitað myndi samkeppni aukast og þjónustustig hækka ef hægt væri að kaupa einföld lyf sem ekki eru lyfseðilsskyld í verslunum og á bensínstöðvum og auðvitað er ekki ríkari ástæða til að takmarka sölu þeirra við apótek hér á landi en í nágrannalöndum okkar. En það gengur illa að fá stjórnvöld hér til að fallast á það. Heimild til almennrar sölu lausasölulyfja er líka spurning um almennt viðskiptafrelsi, samkeppni og hagsmunabaráttu neytenda. Við í Viðreisn teljum að frelsi í viðskiptum sé besta tækifærið og verkfæri sem við eigum til að tryggja aðgengi að nauðsynjavöru (Forseti hringir.) og lágt verð. Þess vegna munum við í Viðreisn sitja hjá við afgreiðslu þessa máls. Það gengur alls ekki nógu langt til að tryggja hér samkeppni og frelsi.