150. löggjafarþing — 129. fundur,  29. júní 2020.

pakkaferðir og samtengd ferðatilhögun og ríkisábyrgðir .

944. mál
[11:56]
Horfa

Albertína Friðbjörg Elíasdóttir (Sf):

Herra forseti. Við ræðum frumvarp meiri hluta atvinnuveganefndar til laga um breytingu á lögum um pakkaferðir og samtengda ferðatilhögun, nr. 95/2018, og lögum um ríkisábyrgðir, nr. 121/1997. Hæstv. ferðamálaráðherra, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, kom fram með frumvarp, í mars ef ég man rétt, til breytinga á þessum sömu lögum til að bregðast við þeirri óvenjulegu stöðu sem er komin upp vegna Covid-19 og algers hruns í ferðaþjónustu. Því miður kom í ljós fljótlega eftir að nefndin hóf umfjöllun sína að sú leið sem lögð var til þar var algerlega ófær og braut að öllum líkindum í bága við bæði stjórnarskrá og EES-samninginn. Þá er auðvitað óásættanlegt hvernig sú leið gekk mjög á réttindi neytenda. Hins vegar er þetta mál sem við fjöllum um í dag mun betra og í raun óskiljanlegt að þessi leið hafi ekki verið valin strax í upphafi. En hvað um það, hún er komin fram og vonandi náum við að gera hana þannig úr garði að hægt verði að ljúka málinu hratt og örugglega og tryggja bæði hagsmuni neytenda og ferðaþjónustunnar í þeirri stöðu sem upp er komin.

Herra forseti. Það eru fjögur atriði sem mig langar að impra hér á. Svo mun ég auðvitað fylgja þessum atriðum eftir í störfum nefndarinnar. Í fyrsta lagi má velta fyrir sér, eins og fram kom í máli framsögumanns nefndarinnar, hvort þetta tímabil ferðalaga, sem er 12. mars til 30. júní, sé nægjanlegt. Eins og komið hefur fram er ljóst að þó að ferðalög milli landa séu að einhverju leyti komin af stað verða þau áfram takmörkunum háð og enn verða umtalsverðar raskanir á ferðum eftir 30. júní sem falla undir 14., 15. og 16. gr. laganna. Sömuleiðis er ljóst að í ýmsum þessara ferða er grundvöllurinn fyrir ferðinni dottinn upp fyrir eins og t.d. gagnvart íþróttaferðum þar sem mót hafa verið felld niður, kóraferðum þar sem mót hafa verið felld niður og fleira mætti telja upp. Þá eru einnig enn ótaldar ferðir til landa sem landlæknir varar sérstaklega við.

Í öðru lagi, herra forseti, mun nefndin mögulega þurfa að árétta í nefndaráliti stöðu þeirra sem hafa þegið inneignarnótu frá ferðaskrifstofum, eins og hv. formaður atvinnuveganefndar kom inn á áðan, og hvort möguleiki sé fyrir þá einstaklinga að fá inneign sína út greidda en einhverjir neytendur kunna að hafa þegið inneignarnótur í þeirri trú að ekki væri annað í boði. Eftir því sem mér skilst er þetta í rauninni tryggt í neytendalögum en ég held að það færi vel á því að nefndin myndi ítreka það í nefndaráliti sínu og vekja athygli á því.

Í þriðja lagi munum við í Samfylkingunni styðja það, eins og í öðrum Covid-málum, að sett verði einhver skilyrði fyrir lánveitingu. Þannig er lágmark að útiloka að þeir sem nýta sér skattaskjól og aflandsfélög fái stuðning úr ríkissjóði eins og við í Samfylkingunni höfum lagt til við önnur mál. Einnig hefði hér verið tækifæri til, eins og í öðrum Covid-málum, að setja skilyrði um áætlun í loftslagsmálum fyrir lánveitingu. Með því skilyrði myndu stjórnvöld setja loftslagsmálin í alvöru á dagskrá og krefjast þess um leið að fyrirtæki geri það einnig.

Í fjórða lagi tel ég að það væri mjög gagnlegt og mikilvægt ef nefndin fjallaði sérstaklega um rétt neytenda í tilvikum þegar ferðaskrifstofur ákveða einhliða verulegar breytingar á pakkaferðasamningum, svo sem að færa ferð fram á næsta ár, en samkvæmt 1. mgr. 14. gr. laga um pakkaferðir getur ferðamaður afpantað ferðina sé veruleg breyting gerð á henni, eins árs seinkun væri t.d. gott dæmi um það. Í rauninni er þetta í lögunum en ég tel, eins og ég nefndi áðan, mikilvægt að við fjöllum sérstaklega um það í nefndarálitinu.

Herra forseti. Mikilvægi ferðaþjónustunnar fyrir íslenskan efnahag leynist engum sem hefur fylgst með síðustu ár. Þetta hefur verið hratt vaxandi atvinnugrein. Margir höfðu ekki trú á þeirri atvinnugrein til að byrja með, en staðan á síðasta ári var samt sem áður sú að þetta var langmannfrekasta atvinnugreinin og skilaði mestum útflutningstekjum fyrir land og þjóð. Um áramót hefðu líklega fáir veðjað á að þetta yrði staða ferðaþjónustunnar nú og ekki bara hér heldur um allan heim. Það er ekki eins og Ísland hafi eitthvað dottið úr tísku heldur er það náttúrlega Covid sem hefur þessi áhrif, eins og allir vita. En alveg eins og við teljum sjálfsagt að styðja við aðrar atvinnugreinar, samanber sjávarútveginn í aflabresti, ætti að vera sjálfsagt að styðja við ferðaþjónustuna í því sem ég myndi telja að væri nú þeirra aflabrestur.

Herra forseti. Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu um of. Nefndin mun að lokinni þessari umræðu taka málið til sín aftur og fjalla um þessi atriði og fleiri sem koma fram í umræðunni og í umsögnum um málið. Það er mikill vilji meðal nefndarmanna til að vinna þetta mál hratt og vel og mun sá vilji vonandi skila sér í samstöðu um að klára málið á þann hátt að það gagnist bæði neytendum og ferðaþjónustunni.