150. löggjafarþing — 129. fundur,  29. júní 2020.

pakkaferðir og samtengd ferðatilhögun og ríkisábyrgðir .

944. mál
[12:02]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Þetta er að mörgu leyti ljómandi mál sem við ræðum. Það er dæmi um mál þar sem þingmenn og þingnefndin eru að bjarga andliti ríkisstjórnarinnar. Málið sem var upphaflega lagt fram fyrir næstum því þremur mánuðum og varðaði svonefndar inneignir hjá ferðaskrifstofum og inneignarnótur var í hróplegri andstöðu við stjórnarskrána, við eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar, í hróplegu ósamræmi við allan neytendarétt og öll neytendasjónarmið, svo að ég tali nú ekki um EES-réttinn. Það var eiginlega hálfneyðarlegt að hlusta á hvern sérfræðinginn á fætur öðrum, fyrir utan náttúrlega umsagnir, t.d. frá ASÍ og Neytendasamtökunum, um málið sem var lagt upp með af hálfu ríkisstjórnarinnar. Það er svolítið undarlegt að málið hafi farið án athugasemda í gegnum ríkisstjórnarflokkana og það er mér í rauninni mjög mikið umhugsunarefni.

En gott og vel, við erum að ræða málið sem á að skera ríkisstjórnina úr snörunni. Það kom líka skýrt fram í tengslum við málið að aðstæður í ferðaþjónustu sem tengjast þessum pakkaferðum hefðu ekki orðið svona óvissar og ruglingslegar — og í rauninni voru bæði neytendur og ferðaþjónustan dregin svolítið á asnaeyrunum af því að engin svör komu, hvorki frá ráðherra né ríkisstjórn. Það hefði verið hægt að koma í veg fyrir mikið óhagræði og ójafnræði sem skapaðist á þessum tíma gagnvart annars vegar þeim einstaklingum sem fengu inneignarnótur afhentar og hins vegar þeim sem tóku ekki þátt í því að fá inneignarnóturnar.

Það eru nokkur sjónarmið sem skipta máli. Ég vil taka undir allt sem hv. þm. Albertína Friðbjörg Elíasdóttir sagði áðan og gera orð hennar að mínum varðandi ferðaþjónustuna. Það þarf að tryggja starfhæfi og umsvif ferðaþjónustunnar með einhverjum hætti. Það þarf að halda fyrirtækjunum á lífi. Að mínu mati er margt í þeim efnum sem þingið og ríkisstjórnin hafa gert vel. Reynt hefur verið að koma fyrirtækjum innan ferðaþjónustunnar inn í svokallað híði. Sumt hefur mistekist en annað tekist ágætlega.

Varðandi ferðaþjónustufyrirtæki sem standa frammi fyrir því að fá úrlausn sinna mála vegna pakkaferða er lykilatriði að við reynum líka að halda þeim á lífi, veita þeim tækifæri. Það þurfti að sinna því að lausafjárstaða þeirra yrði tryggð. Það þurfti að leysa það. En það leysist náttúrlega ekki með því að ganga á eignarréttinn, eins og ríkisstjórnin lagði upphaflega til. Það þarf líka að hyggja sérstaklega að rétti neytenda. Það var ekki gert í upphaflega málinu en verið er að gera það hér með ótvíræðum hætti. Ekki síst höfum við fengið vilyrði, eða blessun í rauninni, frá EES eða ESA um að þessi leið sé tæk og ég vil fagna því sérstaklega.

Þetta mun hafa í för með sér tímabundinn útgjaldaauka en á móti kemur að ríkið á síðan endurkröfu á ferðaþjónustufyrirtækin á einhverjum tíma í gegnum það fyrirkomulag sem boðað er í nefndinni. Svigrúmið er því til staðar innan rammans sem er nú þegar markaður í fjárauka. Með þessu skrefi erum við því ekki að stíga inn á ramma fjáraukalaga.

Það er aldrei rangur tími, virðulegur forseti, til að taka upp réttan málstað og mér finnst nefndin vera að gera það. Það er tvennt sem okkur ber að hafa sérstaklega í huga eftir athugasemdir gesta við mál nefndarinnar. Annars vegar voru eðlilegar þær áhyggjur ferðaþjónustuaðila að tíminn fram í júní, sem af hálfu ráðuneytis og meiri hluta nefndarinnar var ætlaður í að hjálpa þeim og koma til móts við þá, væri of skammur. En ég vil fagna því sérstaklega að formaður nefndarinnar boðaði hér að verið sé að víkka út þann tímaramma þannig að hann verði a.m.k. til loka júlí. Vonandi skoðum við þá hugsanlega hvort ágúst komi líka til greina. Framlengingin mun þýða að ferðaþjónustufyrirtæki í pakkaferðum geta komið til móts við íþróttahópa, kóra og alls kyns slíka hópa sem hafa keypt sér pakkaferðir. Ég tel það afar mikilvægt og þýðingarmikið fyrir einmitt þessa neytendur og þessa hópa. Það verður vonandi afgreitt á eftir á fundi atvinnuveganefndar.

Hins vegar var upphaflega var lagt upp með það í þessu frumvarpi af hálfu ráðuneytisins og meiri hlutans að þetta næði bara til þeirra sem hefðu ekki fengið greitt, sem sagt ekki til ferðaþjónustufyrirtækja sem þegar hefðu lagt út fyrir og komið strax til móts við neytendur og greitt þeim út ferðirnar. Því varð til ákveðið ójafnræði. Það getur hugsanlega skaðað jafnrétti á samkeppnismarkaði. Þess vegna vil ég fagna því sem nefndin hefur síðan gert og breytt frá tillögum ráðuneytisins, þ.e. að þetta lánafyrirkomulag til ferðaskrifstofa sem frumvarpið felur í sér nái jafnt til þeirra ferðaskrifstofa sem hafa ekki endurgreitt pakkaferðir og til þeirra sem hafa endurgreitt pakkaferðir. Við erum því að auka jafnræði meðal þeirra og þar með að stuðla að því að samkeppnissjónarmið og neytendasjónarmið séu virk á þessum markaði.

Þrátt fyrir allar ambögurnar sem voru í framsetningu málsins af hálfu ríkisstjórnarinnar var að öðru leyti nokkuð gaman og áhugavert að vinna málið og fá aukna innsýn inn í fjölbreytta starfsemi ferðaskrifstofanna. Mikið hefur verið rætt um nýsköpun og að auka þurfi nýsköpun. Ég vil undirstrika það sem ég hef sagt hér áður að það er ekki síst nýsköpun í ferðaþjónustu sem við höfum upplifað á síðustu árum með uppgangi atvinnugreinarinnar. Við erum að sjá alls konar nýbreytni og nýsköpun í ferðaþjónustu innan lands. Við erum að sjá ferðaþjónustufyrirtæki bjóða upp á ýmsa möguleika sem okkur hefði ekki dottið í hug hér á árum áður. Þannig gerum við á hinum frjálsa opna markaði, þannig verða sprotarnir til og þannig verða möguleikar til, til að efla verðmætasköpun innan mikilvægrar atvinnugreinar eins og ferðaþjónustan er. Þó að hún sé í mikilli lægð núna hef ég fulla trú á því að ferðaþjónustan til skemmri og lengri tíma muni ná sér. Hún verður ekki eins en hún mun ná sér og hún verður áfram ein af grundvallaratvinnugreinunum okkar því að við erum með vöru, Ísland, sem enginn annar getur boðið upp á. Við þurfum að læra svolítið af reynslunni og skoða þetta en það sem ekki má gera er, eins og mér hefur stundum fundist, að einstaklingar tali ferðaþjónustuna niður. Ég vil ekki taka þátt í því.

Ég tel mikilvægt að við nýtum tækifærið til að örva hagvöxt og ég held að við munum geta náð því með því að efla og styrkja ferðaþjónustuna. Þess vegna er mikilvægt að við höldum fyrirtækjunum innan ferðaþjónustunnar gangandi. Það verður hagræðing innan ferðaþjónustunnar, það er ekki spurning. Fyrirtæki munu leggja upp laupana og hafa þegar hætt starfsemi eða orðið gjaldþrota. Það er í sjálfu sér ekki slæmt á heildina litið svo lengi sem við lærum af reynslunni og reynum að nýta til hins betra og samþætta þá sprota sem hafa vaxið innan greinarinnar. Hér erum við með mál sem veitir mikilvægum þætti í ferðaþjónustunni möguleika á að halda starfsemi áfram og bæta starfsemi sína, bjóða upp á fjölbreytta þjónustu en ekki síður erum við með mál sem tryggir rétt neytenda.

Það skiptir gríðarlega miklu að skilaboðin frá Alþingi séu skýr, að við séum öll, sama í hvaða flokki við erum, að huga að hagsmunum neytenda. Ég ætlaði í þessu tilviki að fá að klappa ferðaskrifstofunum, ekki síður Neytendasamtökunum og ASÍ en líka stjórnarandstöðuflokkunum sem héldu ríkisstjórnarflokkunum mjög við efnið og gáfu þeim ekki svigrúm til að klára þetta ömurlega mál sem þeir lögðu upp með. Það voru mjög skýr skilaboð til ríkisstjórnarflokkanna. Þeir fengu í rauninni lítið svigrúm til að taka þátt í öðru en því að bæta málið með þeim hætti að við erum hér með mál sem ég bind vonir við að við getum afgreitt nokkuð vel síðar í dag í þágu neytenda og í þágu atvinnulífsins. Og það er vel.