150. löggjafarþing — 130. fundur,  29. júní 2020.

ávana- og fíkniefni.

23. mál
[23:37]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er ýmislegt sem hægt er að skoða eins og hefur verið skoðað í þessu, reyndar öll vafaatriðin sem ýmist koma fram í frávísunartillögu hv. þingmanns eða ræðu hennar. Hins vegar stendur alltaf eftir stóra vafaatriðið: Finnst okkur rétt að refsa fólki fyrir að eiga við vímuefnavanda að stríða, já eða nei? Finnst okkur það stundum rétt? Finnst okkur það aldrei rétt? Mér finnst það aldrei rétt alveg eins og mér finnst aldrei í lagi að berja börnin mín. Mér finnst það aldrei í lagi, aldrei nokkurn tímann. Og þannig á það að vera. Þetta er spurningin og þetta er spurningin sem er alltaf skilin eftir. Þetta þarf að skoða. Þetta er það eina sem á eftir að skoða.

Ég ætla að leiðrétta nokkra hluti í sambandi við þessa frávísunartillögu vegna þess að ég var sjálfur í starfshópi sem var settur af ráðherra í kjölfar þingsályktunartillögu sem var samþykkt hér á Alþingi. Þar var lögreglan og þar voru heilbrigðisyfirvöld, við skiluðum skýrslu og þar var tillagan um afglæpavæðingu. Það ferli er bara búið þannig að það sé á hreinu. Þetta er staðreynd og það er hægt að fletta þessu upp á netinu. Þetta er ekki eitthvað sem við þurfum að rökræða.

Mig langar sér í lagi að spyrja hv. þingmann út í d-lið frávísunartillögunnar, að mikilvægt sé að reynsla fáist af úrræði eins og neyslurými áður en frumvarpið verði afgreitt. Ég velti fyrir mér hvað gæti komið út úr þeirri reynslu sem myndi gera það rétt að refsa vímuefnaneytendum. Segjum að þetta klúðrist einhvern veginn. Eigum við þá að halda áfram að refsa neytendum? Eða ef það gengur vel, eigum við þá að halda áfram að refsa neytendum? Af hverju ættum við að halda áfram að refsa neytendum út frá því hvernig neyslurýmin þróast? Ef þau eru ekki framkvæmd rétt eða ef eitthvað fer úrskeiðis, hvernig leiðir það af sér að við ættum að koma öðruvísi fram í sambandi við þetta mál? Það er það sem ég skil ekki.

Spurningin er ekki hvað lögreglunni finnst eða hvað heilbrigðisyfirvöldum finnst heldur hvað okkur finnst sjálfum í hjartanu. Finnst okkur í lagi að refsa fólki fyrir vímuefnaneyslu? Það er það sem þarf að skoða og ég spyr hv. þingmann að því.