150. löggjafarþing — 130. fundur,  29. júní 2020.

ávana- og fíkniefni.

23. mál
[23:43]
Horfa

Frsm. minni hluta velfn. (Halldóra Mogensen) (P) (andsvar):

Forseti. Í þessari frávísunartillögu kemur fram að lagt sé til að frumvarpinu verði vísað til ríkisstjórnarinnar sem feli heilbrigðisráðherra, í samvinnu við dómsmálaráðherra, að semja skýrslu um málið sem lögð verði fyrir Alþingi og eftir atvikum leggja fram tillögur eða frumvarp þar sem tekið verði á þeim álitaefnum sem að framan eru rakin og byggt á þeirri reynslu sem rekstur neyslurýma skilar.

Það hefur komið fram og hv. þingmaður veit að búið er að vinna þessa skýrslu. Hún er komin. Það er spurning hversu margar skýrslur við þurfum áður en við þurfum að byrja að vinna mál. Í ljósi þess langar mig að spyrja hv. þingmann hvers vegna sú vinna sem hefur átt sér stað við skýrsluna, sú þverfaglega vinna, er ekki talin nægileg. Af hverju er hæstv. ráðherra ekki frekar beðin um koma með frumvarp? Getur hv. þingmaður svarað mér því hvers vegna það er ekki tímabært núna að biðja hreinlega hæstv. heilbrigðisráðherra um að skila frumvarpi, byggðu á þeim tillögum sem komu fram í þeirri skýrslu sem er búið að gera, frekar en að koma með aðrar skýrslur?