151. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2020.

fjármálaáætlun 2021--2025.

2. mál
[13:06]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S):

Herra forseti. Í framlagðri fjármálaáætlun má sjá að ríkisfjármálum hefur verið beitt af fullum þunga til að verja störf og skapa viðspyrnu. Gert er ráð fyrir áhrifum heimsfaraldurs kórónuveirunnar á ríkissjóðs raunar lengur en vonir okkar stóðu til í sumar. Rétt eins og ég nefndi í ræðu minni í gær, í umræðum um framlagt fjárlagafrumvarp ársins 2021, eru áhrif faraldursins og lengd hans langstærsta efnahagslega óvissan í dag. Ég tel að við verðum allt eins að búa okkur undir gjörbreytta heimsmynd. Við getum ekki leyft okkur að hugsa að allt falli í fyrra horf. Við verðum að horfa til styrkleika okkar og tækifæra, horfa til þess að efla okkar eigið samfélag, búa okkur undir aðra nálgun, aðra hugsun um hvernig við nálgumst opinberan rekstur. Ég vil þó ekki tala eða álykta með þeim hætti að þær áætlanir sem við byggjum á hér í dag séu á sandi reistar nema síður sé. En vissulega má lítið út af bregða. Fjármálaáætlunin sem við ræðum nú er ábyrg því að hún horfir til þeirrar staðreyndar að skuldasöfnun verði stöðvuð og sem fyrst verði náð jafnvægi í ríkisrekstrinum. Til að sá samdráttur verði ekki jafn sár og gæti orðið skiptir ekkert meira máli en að byggja aftur upp verðmætasköpun, auka verðmæti, stækka hratt út úr þessari óvæntu kreppu, vaxa út úr henni, eins og hv. formaður fjárlaganefndar nefndi það svo ágætlega hér áðan.

Með fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2021 og fjármálaáætlun er haldið áfram á þeirri braut sem mörkuð var með fyrstu viðbrögðum við efnahagslegum áhrifum farsóttarinnar, að verja lífskjör og veita viðspyrnu fyrir nýtt hagvaxtarskeið. Góð staða ríkissjóðs við upphaf farsóttarinnar hefur gefið stjórnvöldum tækifæri til að bregðast kröftuglega við afleiðingum hennar með stuðningi við fólk og fyrirtæki. Hæstv. fjármálaráðherra fór ágætlega yfir það í framsögu sinni fyrr í dag hver helstu úrræðin eru. Í þeirri fjármálaáætlun sem nú er rædd er áfram unnið að helstu stefnumálum ríkisstjórnarinnar á þessu kjörtímabili. Þar á meðal er veruleg efling velferðarkerfa, stórsókn í innviðafjárfestingum, endurskoðun skattkerfa og metnaðarfull markmið í umhverfismálum.

Velferðar-, heilbrigðis- og menntamál eru þau málefnasvið sem mest fjármagn taka, eða um 60% af heildarfjárheimildum ríkissjóðs. Í fjármálaáætlun sem við nú ræðum má sjá glögg merki þess hver sú viðbót og aukning hefur verið á undanförnum árum og þá viðbót er verið að verja eftir fremsta megni til næstu ára. Ég vil sérstaklega nefna átak í uppbyggingu hjúkrunarheimila. Á tímabili fjármálaáætlunar er áætlað að allt að 26 milljarðar kr. fari til byggingar hjúkrunarheimila og í dag fer í útboð fjöldi heimila sem er að komast af stað í framkvæmd. Framlög til félagslegs húsnæðis- og tryggingamála vega þungt, eru um 26% af heildarframlögum. Lenging fæðingarorlofs er meðal áherslumála kjörtímabilsins ásamt hækkun frítekjumarks atvinnutekna aldraðra og auknum stofnframlögum til byggingar leiguhúsnæðis.

Mikil áhersla hefur verið lögð á nýsköpun og rannsóknir í tíð ríkisstjórnar Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks. Má í því samhengi nefna stofnun fjárfestingarsjóðsins Kríu sem er ætlað að stuðla að uppbyggingu, vexti og aukinni samkeppnishæfni atvinnulífs. Auk þess að hafa ívilnanir til fyrirtækja vegna rannsókna- og þróunarstarfs verið ríflega þrefaldaðar frá árinu 2017. Nýsköpun, rannsóknir og þekkingargreinar fá ríflega 20 milljarða kr. á tímabili áætlunarinnar en til samanburðar var sambærileg fjárhæð rúmir 12 milljarðar í fjárlögum árið 2009. Þá aukast verulega framlög til upplýsingatækniverkefna. Raunar má segja að upplýsingatækni og bylting í notkun stafrænna lausna leiki lykilhlutverk í að bæta aðgengi okkar allra að opinberri stjórnsýslu og auka um leið hagkvæmni í ríkisrekstri. Umhverfismál hafa verið í brennidepli allt kjörtímabilið og þar má nefna aðgerðir í loftslagsmálum og landgræðslu. Þá hefur auknum framlögum verið varið til viðamikillar uppbyggingar innviða á ferðamannastöðum, samhliða aukinni landvörslu. Þyngst vega aukin framlög til ofanflóðasjóðs til að efla ofanflóðavarnir. Í fjármálaáætlun og fjárlagafrumvarpi má sjá að við erum að komast hraðar áfram í að byggja þær mikilvægu varnir.

Á næsta ári verða skattar 35 milljörðum kr. lægri en þeir hefðu orðið ef ekki hefði komið til ákvörðunar ríkisstjórnarinnar frá árinu 2017 um skattkerfisbreytingar. Sértækar aðgerðir vegna faraldursins lækka að auki tekjur ríkissjóðs um ríflega 17 milljarða kr. á næsta ári. Skattar á árinu 2021 verða því tæpum 52 milljörðum kr. lægri en þeir hefðu orðið án breytinganna frá árinu 2017. Þetta er sá grunnur sem við höfum lagt á undanförnum árum og honum erum við að fylgja eftir í þessari fjármálaáætlun. Skattkerfisbreytingar hafa síðustu ár falið í sér endurskoðun á skattkerfinu með það fyrir augum að auka ráðstöfunartekjur lægri tekjuhópa, bæta samkeppnishæfni atvinnulífs og vinna að framgangi umhverfismarkmiða ríkisstjórnarinnar.

Tryggingagjald hefur einnig verið lækkað á kjörtímabilinu og verður skattbyrði fyrirtækja 8 milljörðum kr. minni á næsta ári en ella hefði orðið og er þá ótalin tímabundin lækkun tryggingagjalds sem nú hefur verið boðuð í tengslum við lífskjarasamningana.

Framlög til fjárfestinga á árinu 2021 eru há í sögulegu samhengi eða um 111 milljarðar kr. Stærsta einstaka fjárfestingarverkefnið er bygging nýs Landspítala en gert er ráð fyrir tæplega 12 milljarða kr. framlagi til framkvæmdanna árið 2021. Bein opinber fjárfesting losar ríflega 100 milljarða kr. á gildistíma þeirrar fjármálaáætlunar sem við nú ræðum.

Ég vil sérstaklega nefna hér við fyrri umræðu um tillögu til þingsályktunar um fjármálaáætlun að fjárlaganefnd verður í vinnu sinni að rýna áhrif opinberra framkvæmda á útboðsmarkaðinn. Aukning fjármuna til opinberra framkvæmda er vissulega til að fjölga störfum, tæki til atvinnusköpunar, en að sama skapi verður að tryggja að kerfið sem við höfum til að framkvæma útboð myndi ekki stíflu sem leiðir til óhagkvæmari tilboða í verk. Ég á þar sérstaklega við hvernig við flokkum verk og hvernig við framkvæmum útboð. Ég tel sérstaka ástæðu fyrir fjárlaganefnd að ræða, bæði í vinnu sinni við fjárlagafrumvarpið og fjármálaáætlun, hvernig að þessum verkum verður staðið.

Virðulegur forseti. Ég vil að lokum nefna einstakt og sérstakt mál sem tekið er á bæði í fjárlagafrumvarpinu og fjármálaáætlun og ég tel sérstaka ástæðu til að vekja athygli á. Í því máli er fólginn mikill áfangi í réttlætis- og baráttumálum þeirra sem hafa barist fyrir því að hækkun framlaga til jöfnunar á dreifikostnaði raforku í dreifðum byggðum nái fram að ganga. Það er boðað í fjárlagafrumvarpi og er tryggt til lengri tíma í fjármálaáætlun. Jafnframt eru í fjármálaáætlun lagðar til 500 millj. kr. til að efla dreifikerfi raforku. Ég gæti haft mjög mörg orð um hversu stór og mikilvægur mér þykir þessi einstaki þáttur. Án þess að ég eyði tíma í það vil ég fyrst og fremst vekja athygli á því að hér er baráttumál margra þingmanna úr flestum kjördæmum að komast í höfn.

Helsta áskorun stjórnvalda á tímabili fjármálaáætlunar fyrir árin 2021–2025 verður að snúa við hallarekstri hins opinbera vegna efnahagslegra áhrifa heimsfaraldurs kórónuveiru og koma böndum á skuldasöfnun. Við aðstæður sem þessar felur hallareksturinn ekki í sér þjóðhagslegt tap, sagði fjármálaráðherra hér fyrr í morgun. Ég tel rétt að ítreka þau orð. Fénu er varið til að styrkja fjárhagslega stöðu einstaklinga og fyrirtækja til að koma í veg fyrir að verðmæti og störf tapist varanlega. Markmiðið er að styðja við og örva hagkerfið svo að út úr lægðinni komi samkeppnishæft þjóðfélag þar sem velsæld byggist á öflugum mannauði og kröftugu efnahagslífi.

Fyrstu viðbrögð ríkisstjórnarinnar við efnahagsáhrifum Covid-19 heimsfaraldursins fólust í því að beita traustri stöðu ríkissjóðs til að verja heimili og fyrirtæki fyrir fullum þunga áfallsins með ýmsum aðgerðum. Tilgangur þeirra fyrsta kastið var að styðja við lausafjárstöðu og greiðsluhæfi fyrirtækja og heimila eins og kostur var og fleyta þeim áfram til betra efnahagsástands þar sem vonir stóðu til að heimsfaraldurinn yrði ekki mjög langvinnur. Samanlagður halli áranna 2020 og 2021 gæti orðið 600 milljarðar kr. og skuldir hins opinbera, samkvæmt skuldareglu laga um opinber fjármál, gætu því vaxið úr 28% af landsframleiðslu í árslok 2019 í 48% árið 2021. Markmið okkar er að stöðva skuldasöfnun við ríflega 60% af landsframleiðslu. Ég vona að svo langt göngum við nú ekki en það má ekkert út af bregða. Öll fjármálaáætlun og öll stefna okkar byggir á því að okkur takist að endurreisa hér gott og kröftugt samfélag á nýjan leik.