151. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2020.

fjármálaáætlun 2021--2025.

2. mál
[14:04]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V):

Herra forseti. Mig langar til að tala um jafnréttismál. Það hefur mikið að segja um árangur í jafnréttismálum að löggjafinn sé meðvitaður um að ákvarðanir, stefna og lagasetning, sem er almenn og virðist kynhlutlaus, getur í reynd haft mjög ólík áhrif á kynin. Þetta höfum við séð í aðgerðum á vinnumarkaði. Þetta höfum séð í þeim aðgerðum sem við beitum til að vinna gegn kynbundnu ofbeldi. Þetta hefur mikið að segja um uppbyggingu skólastarfs þar sem við sjáum að þarfir drengja og stúlkna er ekki alltaf þær sömu.

Blessunarlega liggja fyrir miklar rannsóknir og starf að baki þessari þekkingu. Þekking á eðli og afleiðingum ofbeldis hefur aukist gríðarlega, miklar greiningar liggja fyrir á stöðu kynjanna á vinnumarkaði, staða drengja í skólum hefur kortlögð og þannig mætti lengi telja. Og þetta er staðan víða í stjórnkerfinu. Þegar hafa verið unnar miklar og góðar greiningar og stefnumótunarvinna hefur farið fram víða og lengi. Þekkingin á samfélaginu og innviðunum er góð. Gögn, tölur og áætlanir liggja fyrir.

Mig langaði að nefna þetta í því samhengi hvort við förum ekki að komast á þann stað að fara að nýta þá góðu vinnu, að það þurfi að fara að taka næstu skref og nýta þessa góðu vinnu sem þegar hefur verið unnin. Við höfum t.d. hvað varðar jafnréttismálin þekkinguna og nú þurfum við að fara að taka næstu skref. Í því samhengi er ég að nefna þetta að ég set spurningarmerki við ákveðið „trend“ ríkisstjórnarinnar sem hefur verið að setja stöðugt upp fleiri hópa sem halda áfram að tala og greina stöðuna.

Nýleg fyrirspurn frá Viðreisn varpaði ljósi á þessa tilhneigingu. Í mars bárust svör um fjölda nefnda og starfshópa sem höfðu verið skipaðir á yfirstandandi kjörtímabili. Forsætisráðherra skipaði 37, fjármálaráðherra 14 og þannig mætti lengi telja áfram. Alls voru þetta 248 nefndir að störfum á kjörtímabilinu ofan á þær nefndir sem þegar höfðu verið stofnaðar. (Forseti hringir.) Og fleiri hafa verið stofnaðar síðan í mars. Það gætu þá verið yfir 300 nefndir starfandi í dag. (Forseti hringir.) Spurningin er þá sú hvort virkilega sé þörf (Forseti hringir.) á 250–300 nýjum nefndum á vegum ríkisstjórnarinnar. (Forseti hringir.) Og þegar fjármálaráðherra talar um blóðuga sóun í opinbera kerfinu hvort hann sé þá að (Forseti hringir.) vísa til þessa því að hver ætli kostnaðurinn sé.

(Forseti (ÞorS): Enn minnir forseti á að 2 mínútur eru til ráðstöfunar hverju sinni.)