151. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2020.

fjármálaáætlun 2021--2025.

2. mál
[16:00]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svarið. 20% sparnaður af einhverjum framkvæmdum er alltaf vel þeginn og ekki síst á þessum tímum. Það er jákvætt að verið sé að skoða þetta. Mér líður vel að vita að verið sé að leita allra leiða af því að þetta er líka mikilvægt. Og þessi harmóníka sem ráðherra lýsir svo vel er rétt á meðan einkaframkvæmdin er á fullu líka en það hefur náttúrlega orðið fall.

Mig langar til að nota þessa seinni umferð í sveitarfélögin. Í samtali við hv. þm. Samfylkingarinnar, Loga Einarsson, kom hæstv. ráðherra inn á aðstoð stjórnvalda vegna vandans sem sveitarfélögin standa frammi fyrir núna. Það var gott að heyra að ríkisstjórnin myndi fylgjast áfram með þróun mála hjá sveitarfélögunum. Mig langaði ná stuttu samtali við ráðherra um það lögbundna hlutverk sveitarfélaga sem lýtur að þjónustu við okkar viðkvæmustu hópa. Við eigum sögu um hvað gerðist fyrir rúmum áratug síðan í annarri kreppu sem kom illa við sveitarfélögin líkt og ríkissjóð og kom niður á þjónustu við þessa sömu hópa. Við erum að sjá mjög slæmar afleiðingar af því akkúrat núna. Þannig að þetta er gríðarlega viðkvæmt. Nú ætla ég ekki að fara að forgangsraða erfiðleikum fólks en það er engu að síður mikilvægt að þetta sé í sviðsljósinu. Ég velti því fyrir mér hvort í þessu samtali öllu, sveitarfélaga við ráðuneytin, ráðherra sveitarstjórnarstigsins og fjármálaráðherra og síðan sveitarfélaganna, hafi einhvern veginn verið reynt að meta hvaða áhrif mögulegt rof í þessari þjónustu hafi þegar talað er um hvar í röðinni aðstoð við sveitarfélögin eigi að vera í langri röð þeirra stofnana og þeirrar þjónustu sem nú þarf að hlúa að. Hefur þetta mat farið fram síðustu mánuði og þá mögulega í ljósi þeirrar reynslu sem við eigum frá því fyrir rúmum áratug?