151. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2020.

fjármálaáætlun 2021--2025.

2. mál
[16:25]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegur forseti. Það er ekkert flókið að útskýra þetta. Við erum að spýta í lófana og höfum verið að gera það markvisst. Við settum tímabundið um 5,5 milljarða í þrjú ár í fjármálaáætlun 2018 vegna umframarðs bankanna, sem við getum auðvitað ekki verið að teikna inn í langa framtíð. Við settum í fjármálaáætlun í fyrra 4 milljarða í fjögur ár í samgöngumál, sem við vorum að nýta af arði Landsvirkjunar. Það er heldur ekki hægt að teikna þá inn í einhverja langa framtíð. Það breytist margt á Covid-tímum. Aukinheldur höfum við verið að bæta í með fjárfestingarátaki upp á 6,5 milljarða í samgöngumál á árinu 2020. Ætli þeir séu ekki verða um 11 milljarðar á árinu 2021 og ég man nú ekki alveg tölurnar í svipinn fyrir 2022. Síðan fjarar það í raun og veru út og árið 2023 er ekkert fjárfestingarátak ríkisstjórnarinnar enda væri óeðlilegt af þessari ríkisstjórn að vera í einhverju átaki til tveggja, þriggja ára og láta það koma fram í tölum fyrir 2024 og 2025.

Ég hef hins vegar heyrt menn hér í dag tala um að það sé skynsamlegt að bæta frekar í fjárfestingarnar og samgönguráðherra væri sá fyrsti til að samþykkja að setja meira fjármagn í það. Ég nefndi hér við hv. þm. Vilhjálm Árnason möguleikann á að spýta í tæpan milljarð á þessu ári sem myndi þá kosta hvorn sinn milljarðinn 2022 og 2023 og reyndar sennilega tæpan milljarð árið 2024 í hafnamál. Þannig að það er verkefni næstu fjármálaáætlunar, næstu ríkisstjórnar, að fjalla um það hvernig á að teikna mynd lengra inn í framtíðina. En síðan, sem ég hef ekki tíma til að segja núna, bætast við PPP-framkvæmdirnar, samvinnuframkvæmdirnar leggjast þarna ofan á. Þær hífa þar af leiðandi upp (Forseti hringir.) framkvæmdastigið á árunum 2024 eða 2025 að öllu óbreyttu.