151. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2020.

fjármálaáætlun 2021--2025.

2. mál
[16:47]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Við þetta tilefni hef ég nú yfirleitt átt orðastað við ráðherra um þróunarsamvinnu. Ég ætla að sleppa því núna en ég vil þó segja að mér þykir mjög erfitt að sætta mig við að við ætlum bara að ná helmingi af þeim markmiðum sem Sameinuðu þjóðirnar gera ráð fyrir og við höfum tekið undir. Ég ætla að ræða aðeins um loftslagsmál. Mannkynið stendur frammi fyrir mjög flóknum og margvíslegum áskorunum sem krefjast náinnar og skilvirkrar alþjóðasamvinnu, nú síðast heimsfaraldri sem bætist við flókin verkefni á öðrum sviðum. Í fjármálaáætlun stendur, með leyfi forseta:

„Í tilfelli loftslagsbreytinga mun kostnaður vegna aðgerða og aðgerðaleysis aukast eftir því sem tíminn líður. Efnahagsleg áhrif og kostnaður af loftslagsbreytingum getur verið verulegur. Kostnaðurinn er þó mikilli óvissu háður enda geta áhrifin verið ófyrirséð, gerst snögglega og haft keðjuverkandi áhrif. Efnahagslegir hvatar og reglusetning á tímabili fjármálaáætlunar geta þó haft mikið að segja um þessi langtímaáhrif.“

Þarna viðurkennir ríkisstjórnin að efnahagslegir hvatar og reglusetning geti haft mikil áhrif til batnaðar. En þau markmið sem íslensk stjórnvöld hafa sett sér í nýrri aðgerðaáætlun í loftslagsmálum eru einfaldlega of veik og losun gróðurhúsalofttegunda eykst ár frá ári í tíð þessarar ríkisstjórnar. Ísland setur sér veikari markmið en t.d. Danmörk og Noregur og þrátt fyrir fögur fyrirheit um græna byltingu eða græna umbreytingu nema framlög Íslands til loftslagsaðgerða minna en 1% af vergri landsframleiðslu 2021, og aukningin er óveruleg. Því spyr ég hæstv. ráðherra hvort hann sé ekki sammála okkur í Samfylkingunni um að við þurfum að stíga miklu stærri skref en boðuð hafa verið og setja metnaðarfyllri markmið og fjármagn í málaflokkinn svo að við getum tekið forystu ásamt öðrum Norðurlöndum. Hefði ekki verið skemmtilegra ef ráðherra gæti spókað sig á öllum fundunum erlendis og virkilega staðið jafnfætis kollegum sínum?