151. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2020.

fjármálaáætlun 2021--2025.

2. mál
[17:37]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (U):

Herra forseti. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra út í markmið og mælikvarða í þeim kafla sem snýr að öryggis- og varnarmálum. Ráðherra rekur kannski minni til þess að á 149. löggjafarþingi lagði sá sem hér stendur fram fyrirspurn um viðveru herliðs á öryggissvæðinu á Keflavíkurvelli. Það kom fram að þegar svarið var skrifað hefði verið dagleg viðvera herliðs á vellinum í þrjú ár. Nú er það markmið í fjármálaáætluninni að viðvera bandalagsríkja hér á landi sé viðvarandi á þessu ári og til 2025 og væntanlega lengur. Viðvera bandalagsríkja hér á landi á að vera í 365 daga á ári. Fjöldi þátttakenda, rúllandi yfir árið, er 1.500, allt að 500 undir lok tímabilsins, miðað við fjölda gistirýma sem sömuleiðis er markmið í þessari áætlun.

Mig langar að spyrja ráðherrann: Hvenær er herstöð herstöð? Varanleg viðvera sem opinbert markmið ríkisstjórnar, þó að herliðið rúlli, þó að einstaklingarnir séu ekki alltaf þeir sömu, þó að stundum séu færri og stundum fleiri — hvenær förum við að kalla það opna herstöð? Og hefur sú umræða átt sér stað einhvers staðar annars staðar en í tengslum við fjármálaáætlun? Ég hefði ekki haldið að þinglega séð væri það rétta leiðin til að ræða jafn viðamikinn hlut.