151. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2020.

fjármálaáætlun 2021--2025.

2. mál
[18:26]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessar vangaveltur og fyrirspurnir. Grunnhugsunin á bak við hlutdeildarlánin er tvíþætt. Það er annars vegar að tryggja ungu fólki fjármagn til að komast í eigið húsnæði, vaxtalaust fjármagn úr sjóðum almennings. Hinn anginn af hlutdeildarlánunum er að auka framboð á hagkvæmu húsnæði. Það hefur verið gagnrýnt mikið að húsnæðisaðgerðir stjórnvalda hafi eingöngu verið á eftirspurnarhliðinni en ekki á framboðshliðinni. Þarna er aðgerð sem er líka að tryggja framboðshliðina.

Við sjáum miklar áhyggjur í atvinnulífinu af því að það er einfaldlega allt í frosti þegar kemur að uppbyggingu á nýju húsnæði. Það er verið að klára það sem verið er að byggja, það er verið að klára það sem er í pípunum, en það er ekkert nýtt að fara af stað. Þessi aðgerð, hlutdeildarlánin, á að virka inn í það samhliða eftirspurnarhliðinni.

Hins vegar er líka sveigjanleiki gagnvart landsbyggðinni og þá kem ég að því sem hv. þingmaður velti upp hér, þ.e. hvort heimilt sé að veita hlutdeildarlán til húsnæðis sem er mikið endurnýtt eða endurbyggt úti á landi. Það er tekið á því í lögunum en líka í reglugerðinni og varðandi ábendingu hv. þingmanns þá munum við taka það til skoðunar. Reglugerðin fór í samráðsgátt í dag og hún fór í samráðsgátt til þess að fá fram sjónarmið, fá fram athugasemdir. Sá sem hér stendur er ekki svo ferkantaður að hann sé ekki tilbúinn til að hlusta á athugasemdir. Ég ætla ekki að svara því hér og nú hvort hægt er að taka tillit til nákvæmlega þeirra athugasemda sem hv. þingmaður bar fram en ég hvet til þess að sem flestir veiti umsögn í samráðsgátt um málið.