151. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2020.

fjármálaáætlun 2021--2025.

2. mál
[18:54]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Herra forseti. Ég þakka andsvarið og árétta að þetta snerist ekki um ákall eftir meiri peningum heldur eftir meiri sanngirni. Bútasaumur í hlutabótaleiðinni var þó samfella. Þarna skorti samfellu og það er bara rétt og það er sanngjarnt að laga þetta.

Mig langar í lokin að koma hæstv. ráðherra svolítið á óvart og nefna málaflokk sem ekki heyrir undir ráðuneyti hans, en þar undir er vissulega það fólk að einhverju leyti sem mig langar að tala um. Mig langar til að tala um að hinsegin fólk er að verða út undan þegar kemur að fjárlögum þessarar ríkisstjórnar og fjármálaáætlun. Undir regnhlíf hinsegin fólks eru börn, þar eru unglingar, fatlað fólk, eldri borgarar, flóttabörn, flóttaunglingar og það eru flóttamenn. Þetta er fólk sem félagsmálaráðherra hlýtur að láta sig varða. Ég verð að segja að á tímum sem þessum, þegar Samtökin '78 hafa undanfarið unnið ómetanlegt starf fyrir akkúrat þessa hópa og hlotið sérstaka viðurkenningu Barnaheilla, finnst mér það ósvífið að lagt skuli vera fram fjárlagafrumvarp og fjármálaáætlun þar sem framlag ríkisins til þessara samtaka er skorið niður.

Nú veit ég vel að það eru tæp tvö ár liðin síðan málaflokkurinn fór frá ráðuneyti félagsmála yfir til forsætisráðuneytisins og ýmislegt gott hefur verið unnið í málaflokknum. En ég er að tala um akkúrat þessa aðgerð. Ég spyr hæstv. félagsmálaráðherra hvort hann geti hugsað sér að beita sér í þessu máli og hvort hann geti hugsað sér að talað sé fyrir einhvers konar þverfaglegri nálgun í málefnum hinsegin fólks því að hér eru margir málaflokkar undir, þessi fjöldi sem ég taldi upp. Það eru menntamál, það eru heilbrigðismál, það eru réttindamál. Er kannski kominn tími til að það sé tekið utan um þennan málaflokk af þeirri virðingu sem hann á skilið (Forseti hringir.) og a.m.k. að þessi ósvífni verði ekki liðin?