151. löggjafarþing — 5. fundur,  7. okt. 2020.

fjármálaáætlun 2021--2025.

2. mál
[12:02]
Horfa

dómsmálaráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Hv. þingmaður fer hér yfir þau vatnaskil sem urðu með lögfestingu nýrra laga 2018. Þá var starfsmannafjöldi stofnunarinnar tvöfaldaður og var búið að leiðrétta fyrir það meinta fjársvelti sem hv. þingmaður nefndi, fyrir gildistöku nýju laganna. Svo komu lögin og þá var bætt við enn frekar. Fyrir tíu árum síðan var einungis um að ræða 20 millj. kr., þannig að það þarf auðvitað að skoða það í einhverju samhengi. Það þýðir ekki að áskoranirnar séu ekki nægar og málsmeðferðartíminn er langur, en fjárheimildirnar til stofnunarinnar lækka ekki, eins og hv. þingmaður nefnir, heldur er bara almenn hagræðingarkrafa á Persónuvernd eins og annað.

Það eru auðvitað áskoranir í þessum málaflokki líkt og annars staðar og mikilvægt að við höldum okkar striki við að reyna að fara yfir þau mál sem koma til okkar. En auðvitað þurfum við líka að horfa til baka þegar reynsla er komin á lögin og spyrja okkur: Göngum við lengra í einhverju? Eru þetta of íþyngjandi lög fyrir fyrirtæki og almenning hér sem fengið hefur talsverða reynslu af þessum nýju lögum sem við tökum upp vegna tilskipana Evrópusambandsins? Ég held að sú yfirferð þurfi að eiga sér stað til þess að kanna hvort það skili sér einnig í einfaldari málsmeðferð.