151. löggjafarþing — 6. fundur,  8. okt. 2020.

hækkun lífeyris almannatrygginga.

[10:45]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. fjármálaráðherra svarið. Hann er þá að segja hreinlega að munurinn á 3,5% og 5,2% sé launaskriðið. Þannig að þessi 3,5% hittu akkúrat á verðbólguna, munurinn á því og 5,2% er launaskrið, 1,7% samkvæmt þessu.

Síðan sagði hann líka: Varðandi tekjuskattinn er það grundvallaratriði að persónuafsláttur hefur haldið verðgildi sínu. Ég spyr hæstv. ráðherra: Hvernig í ósköpunum fær hann það út þegar við erum að lækka persónuafsláttinn? Hann hefur hingað til ekki fylgt launaskriði eða launahækkunum, hvað þá vísitölunni að fullu.