151. löggjafarþing — 8. fundur,  13. okt. 2020.

höfundalög.

136. mál
[19:44]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg):

Forseti. Ég gat ekki látið hjá líða að koma hingað upp og fagna því að þetta frumvarp sé komið fram. Ég ætla að játa á mig þá handvömm, og vona að það komi mér ekki í koll, að ég hef ekki lesið alveg í þaula allt sem stendur í þessu mikla og góða frumvarpi. Ég mun að sjálfsögðu gera það áður en við höldum vinnunni áfram. En ég vildi bara lýsa því yfir hér að það er fagnaðarefni að frumvarpið sé komið fram, þó ekki vonum fyrr því að sá hópur sem nýtir sér þessa þjónustu, einstaklingar með sjón- eða lestrarhömlun, hefur lengi beðið eftir því að fá þau réttindi sem þetta veitir honum. Fyrir okkar litlu þjóð er gríðarlega mikilvægt að við séum hluti af þessu stóra samhengi. Ég kem því hingað upp til að hrósa ráðherra fyrir að leggja málið fram og hlakka til að takast á við það í þinglegri meðferð.