151. löggjafarþing — 10. fundur,  19. okt. 2020.

valdheimildir sóttvarnalæknis og heilbrigðisráðherra til opinberra sóttvarnaráðstafana, munnleg skýrsla forsætisráðherra. - Ein umræða.

[18:29]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka fyrir þessa umræðu, hún er þörf og mikilvæg og ýmislegt áhugavert hefur komið fram og skoðanir verið misjafnar. Kjarni málsins er kannski sá að þær valdheimildir sem sóttvarnalæknir og ráðherra hafa nýtt, í þessum veirufaraldri sem hefur dunið yfir okkur mánuðum saman, standast stjórnarskrá og eru samkvæmt lögum. Það er ákaflega mikilvægt að hafa fengið það fram í þessari ágætu álitsgerð Páls Hreinssonar. Kastljósið hefur meira verið á efnahagsaðgerðunum, eins og við þekkjum, og því mjög nauðsynlegt að þessi umræða fari hér fram og það er mikilvægt innlegg að fá þetta álit frá dr. Páli.

Fram hefur komið nauðsyn þess að endurskoða sóttvarnalögin. Ég tek heils hugar undir það og er gott að sú vinna sé farin af stað. Þá held ég líka að við ættum að horfa aðeins til nágrannalandanna. Danir voru nýlega að samþykkja ný sóttvarnalög þar sem valdheimildir ráðherra eru m.a. til skoðunar og með þeim lögum er gagnleg greinargerð sem er alveg þess virði að skoða í þeirri vinnu sem fram undan er. Hjá Dönum er valdið hjá ráðherra en ekki hjá sóttvarnalækni og svokölluðu sóttvarnaráði hefur verið komið upp sem veitir ráðherra og lækni leiðbeiningar. Efnislega þarf ráðherra að hafa nokkuð víðtækar heimildir til aðgerða sem byggja þá oft á tillögum sóttvarnaráðs. Það þarf hins vegar að tryggja að aðgerðirnar séu í samræmi við stjórnarskrá og mannréttindasáttmála Evrópu og þær séu ekki meira íþyngjandi en þörf krefur. Þetta er afar mikilvægt. Í Danmörku er miðað við að náið samstarf sé á milli heilbrigðisráðherra og dómsmálaráðherra um þessi efni og auk þess þarf að tryggja lögreglu, og eftir atvikum eftirlitsaðilum, lögbundnar heimildir til að framfylgja fyrirmælum sóttvarnalæknis.

Ég nefndi hér í upphafi að heimildirnar væru til staðar, en þá er það spurningin hvernig við nýtum þær heimildir. Við höfum t.d. séð að tímalengd einangrunar er verulega meira íþyngjandi hér á Íslandi en í þeim löndum sem við berum okkur saman við. Upphaf einangrunar miðast við sýnatökudag á Íslandi en annars staðar er miðað við þann dag þegar fyrstu einkenni koma fram. Þar getur munað nokkrum dögum og því getur tímalengdin orðið umtalsvert lengri hér. Undantekningarlaust skal sá sem greinist á Íslandi sæta að lágmarki 14 daga einangrun frá sýnatökudegi en sá frestur er sjö til átta dagar frá því að sjúkdómseinkenni komu fram í samanburðarlöndum. Á Íslandi er gerð krafa um sjö einkennalausa daga en tvo til þrjá í samanburðarlöndunum. Við göngum því töluvert harðar fram en nágrannalöndin og það þarf náttúrlega að rökstyðja mjög vel og á það finnst mér svolítið hafa skort í þessu ferli.

Á upplýsingasíðu sóttvarnayfirvalda hér á landi er ekki að finna neinn rökstuðning fyrir því af hverju frelsissvipting einstaklinga er umtalsvert lengri hér, eins og ég nefndi, en í þeim löndum sem við berum okkur saman við og verður ekki haldið fram að standi okkur að baki læknisfræðilega í þekkingunni, þ.e. Norðurlöndin, síður en svo. Engu að síður erum við að fara þessa leið. Þá vil ég minna á meðalhófsregluna í stjórnsýslulögunum, að stjórnvöld skuli þá aðeins taka íþyngjandi ákvörðun þegar lögmætu markmiði, sem stefnt er að, verður ekki náð með öðru eða vægara móti. Varla þarf heldur að fjölyrða um það að frelsissvipting felur í sér skerðingu á þeim helgu mannréttindum einstaklingsins sem varin eru í 67. gr. stjórnarskrárinnar og mannréttindasáttmálanum.

Ég deili ekki um þá frumskyldu stjórnvalda að verja líf og heilsu almennings þegar glímt er við heilsufaraldur af þessu tagi, sem er fordæmalaus. En þessar ráðstafanir mega ekki ganga lengra en nauðsynlegt er til að ná því markmiði sem að er stefnt og auðvitað vekur það spurningar þegar við sjáum að (Forseti hringir.) við gerum þetta ekki með sama hætti og gert er annars staðar á Norðurlöndum. Það er mjög mikilvægt að geta rökstutt þessar ráðstafanir og þar finnst mér hafa skort á. (Forseti hringir.) Ég fagna því þó að þessi umræða hafi farið hér fram og að nú skuli vera hafin vinna við að endurskoða sóttvarnalögin, sem er brýnt að mínu mati.